Smásögur eftir 25 höfunda um hvernig Ísland getur þróast, til góðs eða ills, á næstu 30 árum
To add milestones and tasks to your plan, please send them via e-mail to info@karolinafund.com. Tell us which tasks you have already finished (checked) and which ones are left.
Showing what the plan is for your project helps build trust with potential backers.
2052 er samansafn af smásögum sem allar eiga það sameiginlegt að gerast árið 2052. Sögurnar gefa innsýn í hvernig hinir ýmsu þættir samfélagsins geta þróast á næstu þrjátíu árum. Markmiðið er ekki að skapa breiða heildarsýn yfir þróunina, enda er slíkt ómögulegt. Þess í stað er áherslan frekar á þróun afmarkaðra þátta samfélagsins og langtíma afleiðingar ákvarðana sem við tökum í dag, til góðs eða ills. Sumar sögurnar draga upp mjög dökka mynd af framtíðinni, ekki endilega af því að það sé líklegasta útkoman heldur frekar sem víti til varnaðar. Hinar dekkri framtíðarsýnir eru þeim einstaka eiginleika gæddar að séu þær ekki dregnar upp aukast líkurnar á því að þær verði að raunveruleika. Aðrar sögur draga upp mun bjartari mynd af framtíðinni og er ætlað að vera okkur innblástur til góðra verka.
Fleiri en 20 höfundar hafa lagt til sögur í bókina. Þetta eru ekki endilega þekktir rithöfundar heldur fólk úr hinum ýmsu geirum samfélagsins sem sumir hverjir eru að skrifa í fyrsta sinn, en sem allir búa yfir áhugaverðri reynslu, þekkingu og sjónarhornum sem komið geta á óvart. Meðal höfunda eru prófessorar og nemendur, frumkvöðlar og þingmenn, leikstjórar, blaðamenn, lögreglumaður og tæknitröll, svo eitthvað sé nefnt. Endanlegur listi yfir höfunda er að finna hér fyrir neðan.
Meðal þeirra spurninga sem sögurnar leitast við að svara eru:
- Hver er framtíð ferðaþjónustunnar?
- Hver er framtíð sjávarútvegsins?
- Hvaða áhrif munu loftslagsbreytingar hafa á Ísland?
- Hvaða hlutverk mun Ísland hafa í heimsmyndinni í framtíðinni?
- Hvernig verður sambýlið við innflytjendur í framtíðinni og hvaðan verða þeir?
- Hvernig munu tækniframfarir breyta dauðanum?
- Hvert verða áhrif samfélagsmiðla í samfélaginu?
- Hver er framtíð íslenskrar tungu?
Markmið bókarinnar:
Markmið bókarinnar er að skapa grundvöll fyrir málefnalega umræðu um langtímastefnu Íslands. Lengi vel hafði Ísland mjög skýr markmið sem þjóðin stefndi að. Á milli 1850 og 1944 var það sjálfstæði Íslands og til þess að ná því markmiði þurfti þjóðin að efla menntakerfið og efla efnahaginn. Eftir sjálfstæði var það sjávarútvegurinn og útvíkkun landhelgi Íslands sem var í brennidepli, ásamt uppbyggingu íslenskra orkuauðlinda sem skilaði Íslandi í fyrsta sæti yfir þjóðir heims þegar kom að nýtingu sjálfbærrar orku og sem eina af leiðandi þjóðum heims í nýtingu eigin auðlinda í sjó og verndun fiskistofna. Upp úr aldamótunum síðustu var það fjármálakerfið sem skyndilega átti að vera framtíðarsýnin en beið algjört skipsbrot í hruninu 2008. Síðan þá hefur umræðan að stórum hluta snúist um hverjum hin ýmsu mistök eru að kenna. Í hinum mikla vexti ferðaþjónustunnar hefur heldur ekki borið mikið á framtíðarsýn, heldur eru allir uppteknir við að uppskera og hafa haft takmarkaðan tíma í að hugsa um hvert ferðaþjónustan stefni eða hvert hún eigi að stefna.
Þessi bók er tilraun til þess að lyfta umræðunni upp á annað plan þar sem þjóðin getur leitast við að finna ný, háleit markmið um hvað Ísland eigi að vera eftir þrjátíu ár. Verður Ísland ennþá leiðandi í orku- og umhverfismálum eða munum við hafa dregist aftur úr? Verður Ísland leiðandi í stjórnmálalegum skilningi á einhverju sviði? Hvernig ætti Ísland að bregðast við hinum yfirvofandi hættum sem koma fram í mörgum af sögunum, loftslagsvánni, hugsanlegri flóttamannabylgju eða tæknibyltingunni sem þegar er hafin?
Bókinni er ekki ætlað að vera vísindalegur grundvöllur fyrir ákvörðunum um næstu skref, heldur að veita fólki hugmyndir í gegnum smásögur um afleiðingar, góðar eða slæmar, af þeim straumum og stefnum sem við sjáum birtast nú þegar og vera grundvöllur að líflegri og málefnalegri umræðu um hvert hið íslenska samfélag framtíðarinnar ætti að vera.
Hverjir eru höfundarnir á bakvið sögurnar í bókinni?
Amal Tamimi, framkvæmdastjóri og fyrrum þingkona
Andri Ottesen, nýsköpunarfræðingur
Ásdís Thoroddsen, leikstjóri
Bala Kamallakharan, frumkvöðull
Birgir Örn Guðjónsson, lögreglumaður
Birgir Grímsson, iðnhönnuður
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðukona rannsóknamiðstöðvar ferðamála
Heiður Anna Júlíudóttir Arnarsdóttir, nemi
Hjálmar Gíslason, frumkvöðull
Hrönn Hrafnsdóttir, loftslagsráðgjafi Reykjavíkurborgar
Ingimar Oddsson, gufupönkari
Jóhann Þórsson, markaðsstjóri
Jón Sigurður Eyjólfsson, blaðamaður
Júlía Birnudóttir Sigurðardóttir, mannfræðingur
Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor
Magnús Árni Skjöld Magnússon, dósent
Margrét Pála Ólafsdóttir, frumkvöðull
Maríanna Friðjónsdóttir, fjölmiðlakona
Nanna Árnadóttir, blaðamaður
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi
Rasmus Gjedssø Bertelsen, prófessor
Smári McCarthy, þingmaður
Soffía Vagnsdóttir, fræðslustjóri
Þór Sigfússon, stofandi Sjávarklasans
Þórhildur Jetzek, tæknitáta og gervigreindarfræðingur
Hverjir eru á bakvið 2052?
Hjörtur Smárason er mannfræðingur og ráðgjafi fyrir jafnt nýsköpunarfyrirtæki sem borgarstjórnir og ríkisstjórnir um framtíðarstrauma og stefnur, og hvernig eigi að laða að þær fjárfestingar, mannauð og viðskipti sem þörf er á til að ná framtíðarmarkmiðum. Í því samhengi vinnur Hjörtur oft með framtíðarmyndir og greiningu á straumum og stefnum og þeim afleiðingum og tækifærum sem þeim fylgja. Með bókinni vonast hann til þess að opna fyrir mismunandi möguleika sem framtíð Íslands býr yfir með því að fá inn fólk af flestum sviðum þjóðlífsins til þess að deila smá innsýn inn í mögulega framtíð landsins. Með því að fá mörg mismunandi sjónarhorn skapast breiðari grundvöllur fyrir umræðurnar.
Jósep Gíslason sér um umbrot og hönnun bókarinnar og er gæðastjóri útgáfunnar. Jósep er m.a. prentsmiður að mennt og hefur áratuga reynslu af umbroti og útgáfu.
Hvernig getur þú tekið þátt í verkefninu?
Hér til hliðar getur þú séð hvernig þú getur stutt við verkefnið. Augljós leið er að kaupa og lesa bókina til þess að geta tekið þátt í umræðunni í samfélaginu sem byggir á sögum bókarinnar. Þess utan getur þú stutt við útgáfu bókarinnar með því að kaupa bækur fyrir alla á kaffistofunni, í leshringnum, í stórfjölskyldunni, kennarastofunni eða stjórninni í fyrirtækinu. Eins getur þú bókað tíma með ritstjóra bókarinnar til þess að ræða framtíðarstrauma og áhrif þeirra á fyrirtækið þitt, eða fengið ritstjórann til þess að koma með fyrirlestur inn í fyrirtækið þitt eða stofnun og deila með starfsmönnunum hvað framtíðin getur haft upp á að bjóða fyrir Ísland.
Síðasti dagurinn til þess að panta er 3. maí næstkomandi.
Fyrir bjartri framtíð Íslands
Hjörtur Smárason
Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464