Samræða um ekkert, heimsfræðilegur heimspekitryllir eftir Grepp Torfason
Ég byrjaði að skrifa Daggarmarkstilgátuna á haustmánuðum 2011, og lauk texta ritsins að mestu um ári síðar, í lok árs 2012. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég hef reynt að skrifa bókina, en í þetta sinn tókst mér loksins að koma þessum hugmyndum á blað þannig að einhver gæti skilið þær. Síðan þá hef yfirfarið textann marg-oft og velt því fyrir mér hvort ég ætti yfir höfuð að gefa ritið út og þá hvernig ég ætti að fara að því.
Ég ákvað loks að gefa bókina út, en áttaði mig þá á því að það að skrifa bókina sjálfa og fullgera handritið (eins og staðan er núna) er ljóslega aðeins hálfur sigurinn, því það þarf að sníða bókina, hanna kápu, prenta bókina og binda inn, koma henni í dreifingu, auglýsa og hvaðeina.
Bókin er fullgerð (það er samt erfitt að ákveða að stoppa að snudda í þessu) og er samtals rúmlega 340 blaðsíður (um 114.000 orð). Ég setti upp svala heimasíðu fyrir bókina þar sem hægt er að skoða innsíður hennar, inngang, efnisyfirlit og fyrsta kaflann. Þar getur þú lesandi góður, glöggvað þig á því hvað er þarna á ferðinni, og hvort þér finnst bókin vera eitthvað fyrir þig eða hentug gjöf handa einhverjum sem þú þekkir.

Hver sem einhverntíma hefur horft upp í stjörnumergðina og velt fyrir sér undrum og víðerni alheimsins, á mjög líklega eftir að njóta sín við lestur Daggarmarkstilgátunnar.
Þrátt fyrir að bókin sé í rauninni heimspekirit, fer fjarri því að hún geti talist þurr og yfirlætislegur texti. Bókinni er ætlað með almennu máli og orðfæri, að opna huga lesandans - að storka vissum viðteknum hugmyndum og freista þess að vekja undurtilfinningu yfir stórkostlegum gátum veraldarinnar sem blasir við okkur.
Bókin er heimsfræðileg tilgáta (e. cosmological conjecture) og hefur meðal annars að geyma harða gagnrýni á forsendur Miklahvellskenningarinnar, en samkvæmt þeirri kenningu var allt samankomið í óendanlega smáum punkti sem sprakk!
Mér hefur fundist þetta fáráðleg hugmynd allt frá því ég var krakki, og hef aldrei getað hætt að hneygslast á hve vitlaus þessi hugmynd er. Það er hins vegar ekki nóg að hneygslast bara, þannig að ég var tilneyddur til að velta þessu öllu saman fyrir mér. Segja má að sumar grunnhugmyndirnar hafi fyrst kviknað þegar ég var unglingur, en tilgátan sjálf hafi tekið að mótast fyrir alvöru upp úr 1990. Þetta hlýtur að vera með lengri meðgöngu bókar sem um getur.
Ég gerði fyrstu tilraun til að skrifa þetta allt niður árið 1998, og hef marg-oft freistað þess að koma þessu á blað síðan þá. Með heimspekinámi við Háskóla Íslands, kynntist ég loks og tókst að tileinka mér aðferðir til þess að ígrunda þessar hugmyndir gaumgæfilegar en áður, og koma þeim í bókarform með sæmilega skipulegum og skiljanlegum hætti.
Í bókinni set ég fram nýstárlegt samhengi hugmynda í formi minnar eigin heimsfræðilegrar tilgátu: Daggarmarkstilgátunnar.
Ritið er greining hugmynda á almennu máli með tilbrigði við svokallaða ljósmóðuraðferð Sókratesar (Sókratískur elenkos). Notuð eru tvö bókmenntaleg verkfæri sem greina, rökræða og gagnrýna hugmyndir sín á milli með samræðu. Ritið verður mun aðgengilegra, skiljanlegra og skemmtilegra fyrir vikið en ef um hefðbundinn fræðilegan texta væri að ræða.
Ritið skiptist í sextán kafla, og köflunum er skipað í þrjá hluta: tilleiðslu-, tilgátu- og afleiðsluhluta. Í öllum köflum ritsins er samantekt helstu hugmynda og vensla sem þar koma fram.

Hvaða erindi á einfaldur heimspekingur á borð við mig við heimsfræðilegar hugmyndir? Hvernig get ég haft nokkuð markvert fram að leggja hvað svona nokkuð varðar? Held ég virkilega að það verði tekið mark á mér?
„Hvað vil [ég\] „upp á dekk“ í einhvers konar huglægri rannsókn á hávísindalegu viðfangsefni á borð við heimsfræði, innan um sérhæfðar stórstjörnur vísindanna? Það er í anda boðskapar annars kafla bókarinnar Frelsið eftir heimspekinginn John Stuart Mill sem ég sæki mér rétt til þess að spyrja hvers kyns spurninga sem mig lystir og storka hvers kyns „dauðum“ hugmyndum, venslum og nálgun. Ég hef velt fyrir mér gerð alheimsins frá því ég var barn, og finn hjá mér þörf fyrir að setja loksins í orð og láta frá mér þessa tilgátu mína og hugmyndir um mögulega gerð alheimsins, nokkuð sem ég kalla Daggarmarkstilgátuna– líklega of snemma þrátt fyrir langa ígrundun, og kannski án þess að hafa ígrundað og gagnrýnt alla þætti tilgátunnar nógu gætilega.“ (Úrdráttur úr inngangi ritsins)
Það má reyndar segja að heimsfræðin (e. cosmology) sé hluti af hinni upprunalegu hefð vestrænnar heimspeki - náttúruspekinni, en slíkt er í dag nokkuð sem flestir telja að stjarneðlisfræðingar ættu einkum að sinna. Samt kvarta sumir eðlisfræðingar, og halda því jafnvel blákalt fram að „heimspekin sé dauð.“
Ég tel því vel við hæfi að ég taki það að mér að sýna fram á að það séu enn til heimspekingar sem veigra sér ekki að takast á við vensl hugmynda með hlutlæga tengingu að baki á borð við heimsfræðina.
Spurningin er jú, hvað er heimurinn? Það að kljást við þannig spurningu er sannarlega ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, en ég tel mig engu að síður geta fært sannfærandi rök fyrir ýmsu hvað þetta varðar.
Ég vonast til þess að einhverntíma verði rifist harkalega um þessar hugmyndir mínar, en það er einmitt markmiðið með kenningum og tilgátum, að um þær sé tekist. Heimspekin er jú samræða þegar upp er staðið.

Það kostar sitt að gefa út bók, sérstaklega ef maður er blankur háskólanemi sem langar að láta á það reyna hvort það sé mögulegt að gefa út bók upp á eigin spýtur á sómasamlegan hátt, án þess að eiga það á hættu að gefa frá sér allan rétt á verkinu.
Það sem mér finnst frábært við Karolina fund er það, að þeir sem styrkja verkefnið fá að vita nákvæmlega að hverju þeir ganga og hvað þeim hlotnast fyrir framlag sitt. Sem höfundur þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að ég sé að semja frá mér rétt til verksins, enda sjálfur ábyrgur fyrir útgáfu ritsins og því að standa skil af umbun við styrktaraðilana.
Fái ritið ekki þann lágmarksstuðning sem er nauðsynlegur útgáfunni og söfnunin miðast við, fá allir þeir sem gert hafa áheit á verkefnið einfaldlega endurgreitt að fullu. Ég sjálfur verð reynslunni ríkari, ber ekki það mikinn kostnað af tilrauninni að ég ráði ekki við hann, og þarf ljóslega að hugsa minn gang hvað þetta allt snertir.
Fái ritið hins vegar stuðninginn, get ég gefið það út með reisn og sóma, og fengið í leiðinni að kynnast hópi frábærs fólks sem hefur sýnt í verki að það vill hvetja mig áfram til dáða. Hvað gæti verið yndislegra?
Ég vona innilega að þú sjáir þér fært lesandi góður, að styrkja útgáfuna og hjálpa mér þannig að tryggja að ritið komi út. Ef þú ert blönk eins og ég, geturðu samt hjálpað til með því að deila síðu verkefnisins á snjáldurskinnu (facebook) meðal vina þinna, og vinna útgáfu ritsins þannig brautargengi. Á þann hátt geturðu lagt þitt af mörkum þrátt fyrir blankheit, og keypt svo ritið í bókabúð seinna þegar þú átt pening :) Efst á þessari síðu, undir titli verkefnisins, má finna hlekki til að deila á samskiptamiðla.
Í öllu falli og hvernig sem fer - takk kærlega og fyrirfram fyrir stuðninginn og hvatninguna.
Þinn einlægur,
Greppur Torfason

Myndir af stjarnfræðilegum fyrirbrigðum með þessum texta eru allar fengnar hjá ESA/Hubble
Karolina Fund ehf © 2025 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Bjargargata 1, 102 Reykjavík, Iceland