Bókin innheldur frásögn af lífshlaupi mínu, brotinni æsku, neyslu á LSD og vímuefnum, geðsjúkdómum og manndrápi, veru í fangelsi og á réttargeðdeildum – að ógleymdum galdrinum um hina glæstu endurreisn mína. Í bókinn eru ljósmyndir af 25 málverkum eftir mig og einnig fjöldi persónulegra ljóða.
... read more

FINISHED

This project is now finished.

€2,820

raised of €1,600 goal

0

days to go

92

Backers

176% FUNDED
No rewards exist or campaign is not public. Log in to add or edit rewards.
Get this! All gone!

Pledge € {{ reward.amount }} {{ reward.amount * 150 }} ISK


{{ reward.title }}

{{ reward.description }}

Limited ({{ stockLeft }} left of {{ reward.stock }} ) Gone (0 left of {{ reward.stock }} )
{{ reward.stock_reserved }} backer {{ reward.stock_reserved }} backers
Get this!

Pledge without a reward

Team

Plan

To add milestones and tasks to your plan, please send them via e-mail to info@karolinafund.com. Tell us which tasks you have already finished (checked) and which ones are left.

Showing what the plan is for your project helps build trust with potential backers.

Undirbúningur útgáfunnar

100%
  • Fara yfir efnið - lagfæra sumt
  • Velja myndir í bókina
  • Bókin sett upp á umbrotsforriti

Útgáfan

100%
  • Prenta bókina
  • Koma bókinni í dreifingu
  • Standa að sölu á bókinni

Further Information

Pegasus

Ég finn fyrir vængjataki ljóða minna í sálinni.

Það er hvíslað
að mér – utan úr tóminu
fljúgðu hærra, fljúgðu hærra ...


Hann hafði droppað sýru um kvöldið og sat í lótusstellingu á gólfinu í herberginu í Løvehuset í Kristjaníu. Gluggi stóð opinn og hlý kvöldgolan streymdi inn. Það logaði á kerti á gólfinu fyrir framan hann, að öðru leyti var rokkið í herberginu. Sýran mallaði rólega í honum og ekkert benti til þess að þessi sýrunótt yrði öðruvísi en aðrar. Hann kveikti í Prince sígarettu og virti fyrir sér hnífinn sem lá innan seilingar á gólfinu. Þá greip hann allt í einu til hnífsins og bar blaðið uppað kertaloganum. Það fór straumur um líkama hans og honum fannst sem hnífurinn þyngdist í hendi. Hann lét logann sleikja eggina um stund. Sýran bar hann um myrkan ranghala, allt rann saman, hann sjálfur, kertaloginn og hnífurinn – andrúmsloftið breyttist í kolsvarta slikju. Honum fannst sem veggurinn á bakvið hann opnaðist og risastór skuggamynd með útlínur mannveru stigi fram. Skuggamyndin liðaðist um herbergið um stund uns hún nam staðar andspænis honum. Aðeins kertið í stjakanum var á milli hans og verunnar ...

Um hádegið daginn eftir sagði ég við stúlkuna að rétt væri að við reyndum að hafa upp á eigum hennar. Sýruáhrifin blunduðu ennþá í mér og juku á næmni mína og þefvísi. Við þræddum slóð í miðborginni sem ég þóttist skynja að leiddi til göturæningjanna og endaði kapallinn inni á Aðaljárnbrautarstöðinni. Ég sá í hendi mér að lausnin fælist í talnamengi geymsluhólfanna og þegar ég hafði áttað mig á hvernig lá í talnakerfinu þóttist ég vita í hvaða geymslubás ránsmennina væri að finna. Stóð það heima. Í umræddum bás komum við að nokkrum skúrkum sem höfðu plastpoka undir höndum merktan íslensku fríhöfninni. Ég hafði rýtinginn góða við beltisstað og sýndi af mér að ég væri til alls líklegur. Skúrkunum leist þá ekki á blikuna og afhentu pokann. Í ljós kom að sitthvað vantaði af eigum stúlkunnar.

Flöskum hafði verið staflað upp í einu horninu, mjög sóðalegt gólfteppi og á sófaborði úði og grúði af alls kyns lausamunum. Var okkur boðið til sætis í djúpum stólum. En það var háttur þeirra sem máttu sín einhvers í fríríkinu að búa híbýli sín mublum en fara ekki að hætti óbreyttra hippa og sitja á gólfinu. Uppi á stórum skenk var plötuspilari og nokkurt safn af vinylplötum. Var nú sett dúndrandi rokkmúsík á fóninn og opnaðar bjórflöskur. Það var enginn asi á hlutunum, fýrt í hasspípu og slakað á.

Hann hafði oft reynt að draga upp í huga sér mynd af hinu frjálsa lífi hippans og dreymt um að lifa því. Og þar sem hann sat þarna í djúpum stól hasssalans fann hann að þetta var forsmekkurinn að því að uppfylla drauminn.
Þá sá ég skyndilega að á sófaborðinu var umtalsverður slatti af litlum gulum töflum. Þetta var Orange Sunshine sýra. Húsráðandi tók til við að telja sýruna og þegar allt virtist stemma að lokum vorum við félagi minn hvattir til að droppa. Þegar sýran hafði verið innbyrt var drukkinn bjór og reykt hass meðan beðið var áhrifanna – sem létu ekki á sér standa. En þetta var frekar veik sýra og trippið því aðeins léttur fílingur. Þegar komið var fram yfir miðnætti og menn orðnir þvældir af sukkinu og vildu draga sig í hlé var mér og félaga mínum vísað til herbergis út við dyrnar að álmunni. Þar var búið að brjóta gat á vegg og gera innangengt til tveggja herbergja. Okkur var boðið annað herbergið til afnota, ekki aðeins yfir nóttina, heldur til frambúðar.

Hvunndagsgráminn gerði sig heimakominn í tilveru hans, tilveru sem hafði raknað í sundur á saumum eins og illa gerð flík. Draumur bernskunnar sigldi hraðbyr út í myrkrið. Í hjarta hans var tregi og sorg. Hann var maður í hlekkjum.

Ég hafði spurnir af nokkrum ungmennum sem hugðu á Kaupmannahafnarför. Það kveikti í mér ferðalöngun. Og þar sem ég stóð á krossgötum í lífi mínu, hafði gefist upp á sjómennsku og fátt var í spilunum sem veðjandi var á, ákvað ég að bregða búi og halda til Hafnar. Þetta var í júní 1974.

Kaupmannahöfn hreif hann strax við fyrstu kynni. Að ganga um götur borgarinnar var hrein uppljómun. Hann losnaði við þungann að heiman af herðum sér. Iðandi mannlífið og tækifærin, sem borgin bauð upp á, voru sannarlega yndisauki. Skildi hann þá fyrst hvað fólst í því að slíta átthagafjötrana.

Ég hafði frétt að nokkrir ungir landar mínir hefðu hreiðrað um sig í yfirgefinni blokkaríbúð í Slotsgade á Norðurbrú og þótti mér rétt að leita þessa landa mína uppi og fór því að morgni dags fótgangandi þangað. Þegar ég kom í götuna byrjaði ég á því að knýja dyra hjá ungum íslenskum hjónum sem bjuggu í sömu götu og hústökufólkið. Ég vissi til hjónanna en þekkti þau raunar ekkert. Þetta var aldargömul bygging og stigarnir voru feysknir og klæðningin lyktaði af sagga. Á fjórða stigapalli drap ég dyra og ung kona með kornabarn í fanginu opnaði fyrir mér. Hún virtist í kringum tvítugt, meðalhá vexti og ljós yfirlitum. Ég ávarpaði hana kurteislega og gerði grein fyrir mér. Bauð hún mér að koma inn fyrir og drekka með sér tesopa. Íbúðin var smá skonsa, eitt herbergi og eldhúskrókur. Hún tjáði mér að eiginmaður sinn væri í vinnu við járnbrautirnar. Síðan bar hún fram te og hunang og bað mig að hafa gott af. Að því búnu fór hún að gefa barninu brjóst. Ég sötraði á tedrykknum og skýrði henni frá högum mínum og hvers ég vænti af veru minni í borginni. Skildist mér fljótt að heimsókn mín væri á engan hátt óviðurkvæmileg, ekki væri óalgengt að Íslendingar sem kæmu til Hafnar bönkuðu upp á hjá þeim hjónum. Eftir að hafa spurt hana um eitt og annað varðandi borgina minntist ég á húsnæðisskort minn, hvort ekki væri lausn á því í húsinu. Sagði hún þá að í hennar stigagangi væri ekkert laust en tveimur númerum neðar byggju Íslendingar og þar yrði örugglega skotið yfir mig skjólshúsi. Þakkaði ég henni fyrir viðurgjörninginn og heilræðin og kvaddi.

Hann var með rottuandlit. Útskúfaður hraktist hann um götur og fann leggja kaldan straum í hnakkann. Hann kom að kunnuglegu húsi og drap á dyr. Unglingsstúlka kom til dyra og hann bað um að fá að koma snöggvast inn fyrir. Það kom smá hik á stúlkuna en síðan hleypti hún honum inn. Hann settist við eldhúsborðið en átti í erfiðleikum með rottuandlitið. Gömul kona kom fram úr stofunni án þess að virða hann viðlits eða bjóða góðan daginn. Hann drakk kaffið og íhugaði hvort fólkinu væri ljós skapnaðurinn, rottuandlitið. Nóttin hafði verið honum þung í skauti. Hann hafði staðið í almenningsgarðinum og horft upp í festinguna. Það hafði verið norðanátt, kalt og hjarn yfir öllu. Stjörnuskarinn hafði dansað um himinhvolfið líkt og fiðrildasveimur. Hann hafði reynt ákaft að berja niður ófögnuðinn sem sótti að honum utan úr köldum geimnum en í birtingu hafði morgunstjarnan brugðið á hann rottuandlitinu. Þessa nótt hafði svarta stjarnan vélað svo um að hún fengi sál hans í skiptum fyrir að barni myrkursins yrði fyrirkomið.


Róm 1982


Nakinn
á kyrrlátu torgi undir dagrenningu
að baki næturflug á vængjum óttans

verður hans skapadægur
þegar torgklukkan
glymur borgarbúum morgunstund
þegar svartir rakkar borgarinnar
birtast á torginu?

*
Í blindri sturlun
stormar hann um myrk borgarstrætin
skóhælarnir lemja malbikið
fingur hans krepptir.

Undir skjólvegg
þöktum plakötum
með boðskap stjórnleysingjanna
híma hýenurnar með tryllta augnaráðið
og bíða dagmáls.

Ég yfirgaf þorpið léttur í spori, ekki sár eða reiður, heldur með bjartsýnina í farteskinu, með ljós sannleikans í brjósti – sannleika sem ég einn vissi.

Hann hafði lifað lífinu að mestu í eigin hugarheimi, var fölnandi blóm merkurinnar en hafði þó alltaf fundið í brjósti sínu streng, óræða rödd sem hvatti hann til að leita sinnar réttu tilveru og bugast ekki þrátt fyrir mótlætið. Þessi strengur, þessi rödd, auðgaði hann í einverunni og ýtti undir löngunina til að berjast fyrir sinni réttmætu stöðu í hörðum heimi. Hinar dapurlegu aðstæður hans í þorpinu höfðu gert honum ljósa þá gullvægu staðreynd að hann yrði að íklæðast gervi trúðsins til að verjast áföllum. Hann var þess fullviss að þótt honum væri ætlað að bera þungar byrðar myndi hann að lokum sigra. Í sálu sinni fann hann fyrir uppljómun sem renndi stoðum undir vissuna um að hans tími kæmi. Sterkur myndheimur sem örvaði sköpunargleðina, var honum að sönnu ljós lífsins.

Þegar ég kom heim í íbúðina var tekið að birta af degi. Ég lagðist til svefns án þess að afklæðast og sofnaði fljótt en vaknaði aftur eftir þriggja klukkustunda djúpan og draumlausan svefn. Í fyrstu örlítið ringlaður en svo skýrðist hugur minn og atburðir næturinnar urðu ljóslifandi fyrir mér. Ég fór fram á baðherbergið, kastaði af mér vatni, þvoði hendur mínar og leit í spegilinn og brá í brún þegar ég sá spegilmynd mína: Andlitsdrættirnir voru hörkulegir og í augnaráðinu var grimmdarlegur glampi. Örlitla stund horfði ég í spegilmyndina og atburðir næturinnar runnu í gegnum huga minn í smáatriðum,

RÖDDIN

Í bernsku
nam ég lága rödd
úr hinu óræða tómi.

Æ síðan
hefur þessi rödd
hvíslað að mér
úr fjarlægri nánd
hvaða dyrum
þyrfti að ljúka upp
í sannleiksleitinni.

Þessi rödd
í endurvarpi tímans
birtist sem skynjun
í flæði hugans
vakti vonir
kveikti drauma
vísaði veginn
um myrkheima.

Þessi hvíslandi rödd.

1988 gaf ég út ljóðakverið „Brjálaða plánetan“ sem var heilsteypt og hafði til að bera ljóðrænan þokka, sem var viðnúningur frá fyrri ljóðabókum. Síðan tók við fjórtán ára þögn. Í innilokuninni á réttargeðdeildunum var lítið um yrkingar, aðeins eitt og eitt smáljóð fæddist. Það var ekki fyrr en árið 2002 að skriður komst á skáldskap minn. Þá sendi ég sendi frá mér ljóðabókina „Spor mín og vængir“. Sú bók innihélt endurgerð gamalla ljóða svo og þau smáljóð sem höfðu orðið til í innilokuninni. Með útgáfu þessarar bókar varð sprenging í útgáfu minn. Næstu tólf árin sendi frá mér tíu ljóðabækur, tvær bækur sem voru ágrip af lífssögu minni, smásagnasafn og þrjú ljóðaúrvöl. Allar bækurnar eru eiginútgáfa.

Mér varð strax ljóst að það er ekki auðhlaupið að því að selja ljóðabækur. Ég vissi að vegna fortíðar minnar átti ég ekki upp á pallborðið hjá forlögum. En mér fannst að rödd mín þyrfti að heyrast og tók mér því stöðu á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis – herjaði á vegfarendur með kaup á bókum. Staða mín á horninu, bjóðandi ljóðakver, var nýlunda í borgarlífinu og voru margir vantrúaðir á árangur af slíkri starfsemi. En þrátt fyrir efasemdarraddir var ég alltaf viss um að mér tækist að fóta mig í sölunni á horninu. Þótt ljóðið ætti erfitt uppdráttar í landinu þá væri aðráttarafl í „nálægðinni“, það er að segja ef höfundurinn stæði með bókum sínum gegnum þykkt og þunnt með því að bjóða vegfarendum bækur sínar til sölu, áritaðar. Fólk er ekki ýkja ginkeypt fyrir ljóðabók á ferð sinni um Austurstræti

FEGURÐ

Þegar ég horfi um öxl
til minnar stórbrotnu fortíðar
sé ég fegurðina sem undir býr.

Fegurðin er drifhvati lífs míns.

Á umbrotaárunum milli 1982–88, tók ég á mig fimm geðklofaköst án þess að geðheilbrigðiskerfið rétti mér litla fingur til hjálpar. Þetta er verulega ámælisvert í sögulegu ljósi. Ekki þar fyrir að ég hafi beðið um aðstoð kerfisins í nauðum mínum. Nei, síður en svo, tilhugsun að vera lagður inn á geðdeild var mér í raun skelfileg. Hvað var þá til ráða? Getur geðheilbrigðiskerfið nokkuð aðhafst ef geðstola maður hafnar afskiptum þess? Því er fljótsvarað: Ef kerfið virkar eðlilega eru til úrræði til að koma geðstola manni til hjálpar. Í dag harma ég að hafa orðið leiksoppur eigin sjúkdóms, að hafa orðið mannsbani í geðrofskasti. Ég fékk í raun að heyra það frá félagsráðgjafa, sem hafði spurst fyrir um það hjá geðsviði Landspítalans hvort ekki væri möguleiki að koma mér til hjálpar, að það væri álit lækna að ég væri það tilfelli sem þýðingarlaust væri að reyna að endurhæfa. Maður sem fer um stræti og götur borgarinnar í þeim ham sem ég var í er augljóslega að hrópa á hjálp. Seinna fékk ég að heyra að það hefði verið álit, bæði hins almenna borgara og lögreglu, að ég væri djúpt sokkinn í neyslu örvandi efna og það útskýrði trylling minn, að tryllingur minn stafaði fyrst og fremst af vímuefnaneyslu en væri ekki vegna geðrænna truflana. Það var auðvitað mikill misskilningur. Ég hef aðeins einu sinni á ævinni notað örvandi efni. Það var á áttunda áratugnum þegar ég keypti 1 gramm af amfetamíni af félaga mínum. Þau skipti sem ég neytti cannabisefna frá árunum 1983 til 88 eru teljandi á fingrum annarrar handar. Þetta kann mörgum, sem telja sig til mín þekkja þykja fremur ótrúverðugt, en þetta er sannleikur.

Tvennt er það sem veldur straumhvörfum í lífi mínu: Annars vegar er það sýran og hins vegar er það manndrápið. Ég hef látið þess getið að sýran hafi komið af stað geðklofanum. Það er þó ekki svo einfalt því þegar ég, tuttugu og fjögurra ára gamall, gríp til sýrunnar, hafði ég hrakist mig fram á ystu brún og það þurft ekki mikið til, til að ýta mér fram af brúninni. Ef líf mitt er skoðað, frá barnæsku fram til þess tíma þegar sýran mætir til leiks þá þarf ekki að fara í grafgötur um að smám saman hlýtur að hafa verið að molna undir fótum mínum. Geðklofinn sem ég þjáðist lengi af var því ekki eingöngu vegna sýruneyslu, heldur líka vegna þess að mér hafði verið búinn samastaður í tilverunni sem var í hrópandi andstöðu við allt það sem mér var eiginlegt, allt það sem mér var náttúrulegt.

Í bakspegli


Hafa mig borið
þungir straumar
að óseyrum
langt að
langt neðan úr djúpunum
– heimi blæðandi myrkurs.

Horfi ég
í mistur fortíðar
mótar fyrir ævi minnar
stríðu stundum
jafnt sem hlæjandi leik.

Að baki
eru klungrin
og hinar hálu brautir.

Síst mun ég
lífshlaup mitt lasta
– enginn ræður auðnu sinni.

Í dag er fylling tímans!

Hinn geðsjúki hefur tilhneigingu til stórmennskuæðis og er trúlega lífeðlisfræðilegum þáttum um að kenna. Þegar hinn pólitíski heimur skarast við heim hins geðsjúka verður samsláttur í geðheiminum og þá er stutt í kolsvarta paranoju. Því er þannig varið að hinum geðsjúka er gjarnt að líta á sjálfan sig sem miðpunkt alls. Þó er hann meðvitaður um blokk sem hann sér sem harðan keppinaut um völdin í landinu þar sem hann býr. Það er hin opinberlega viðurkennda valdablokk; stjórnmálamennirnir. Þá gerist oft að hugur hins geðsjúka planleggur heimsyfirráð og þá verða æðstu valdamenn veraldar að skotspóni. Vitaskuld hefur hinn geðsjúki aldrei tækifæri til að sýna og sanna hinni óbreyttu alþýðu hver fari raunverulega með völdin. Hinn geðsjúki lifir í lokuðum heimi, heimi raddanna. Allur hinn pólitíski hildarleikur gerist innan vébanda raddanna. Valdið skreppur á milli hólfa í höfði hins geðsjúka; ýmist hefur hann náð völdum í landinu (eða heiminum öllum) eða hann tapar þeim í flóknu valdatafli.

LÍFSINS TAFL


Um dagana
hef ég setið
að lífsins tafli.

Á tjald hugans
bregður fyrir
myndum
af tapskákum
fortíðar
sem gleymast ei
og eru mér víl.

Í hugarfórum
finnast líka
sætir sigrar
mér til vegsauka.

Að stilla upp borði
og tefla til þrautar
er hinn rétti andi

– lífið er áskorun!

PLAKÖT

LJÓÐAÚRVAL

Nýja ljóðabókin

{{ userName(backer) }}

{{ backer.short_description }}

FINISHED

This project is now finished.

€2,820

raised of €1,600 goal

0

days to go

92

Backers

176% FUNDED
No rewards exist or campaign is not public. Log in to add or edit rewards.
Get this! All gone!

Pledge € {{ reward.amount }} {{ reward.amount * 150 }} ISK


{{ reward.title }}

{{ reward.description }}

Limited ({{ stockLeft }} left of {{ reward.stock }} ) Gone (0 left of {{ reward.stock }} )
{{ reward.stock_reserved }} backer {{ reward.stock_reserved }} backers
Get this!

Pledge without a reward

Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464