Hlíf Sigurjónsdóttir

Hlíf Sigurjónsdóttir er fædd í Kaupmannahöfn en ólst upp í Reykjavík. Hún nam fiðluleik hjá Birni Ólafssyni konsertmeistara við Tónlistarskólann í Reykjavík og fór síðar til framhaldsnáms við Háskólana í Indiana og Toronto og Listaskólann í Banff í Kanada. Einnig nam hún hjá Gerald Beal fiðluleikara í New York borg. Á námsárum sínum kynntist hún og vann með mörgum merkustu tónlistarmönnum tuttugustu aldarinnar, þar á meðal William Primrose, Zoltan Szekely, György Sebök, Rucciero Ricci og Igor Oistrach. Hlíf hefur haldið fjölda einleikstónleika og leikið með sinfóníuhljómsveitum og kammersveitum víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada.

  Árið 2008 kom út geisladiskur með öllum partítum og sónötum fyrir einleiksfiðlu eftir J.S. Bach í flutningi hennar. Sá diskur hlaut afar lofsamleg ummæli og sjö árum síðar endurútgaf bandaríska útgáfan MSR-Classics diskinn. Hlíf hefur leikið þessi verk á tónleikum hérlendis og beggja vegna Atlantshafsins, bæði stök verk og í heild á tvennum eða þrennum tónleikum. Aðrir geisladiskar Hlífar hafa hlotið frábæra dóma, t.d. var geisladiskur hennar DIALOGUS, með einleiksverkum sem samin voru sérstaklega fyrir hana, tilnefndur „CD of the Year 2015“ af Maria Nockin, gagnrýnanda Fanfare Magazine.

  Hlíf er annt um sögu klassískrar tónlistar á Íslandi. Í tengslum við útvarpsþætti sem hún gerði um Björn Ólafsson konsertmeistara árið 2017 hlustaði hún á allar upptökur sem honum tengjast í fórum ríkisútvarpsins. Hún hefur síðan unnið að því að þessum upptökum yrði bjargað frá eyðileggingu. Hlaut hún meðal annars um styrk úr Tónlistarsjóði til að greiða tæknimönnum fyrir að hreinsa lakkplötur og færa yfir á stafrænt form. Geisladiskurinn Sagan í tónum er árangur þessa starfs. 


Heimasíða Hlífar er www.HlifSigurjons.is

Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Powered by Karolina