Erla Dóra Vogler

söngkona og jarðfræðingur


Erla Dóra Vogler, mezzósópran

Erla Dóra Vogler ólst upp á Egilsstöðum og hóf 15 ára nám í klassískum söng hjá Keith Reed og Suncönu Slamning við Tónlistarskóla Austur-Héraðs og lauk þaðan 7. stigi í söng. Náminu hélt hún áfram undir handleiðslu Þórunnar Guðmundsdóttur og Hrefnu Eggertsdóttur við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan með 8. stig í söng vorið 2007.

Erla var tekin inn í óperu­deild Tónlistarháskólans í Vínarborg haustið 2007 hjá Prof. Orlowsky/Prof. Theimer og söng mörg titilhlutverk í óperuuppsetningum við skólann. Söngkennarinn hennar var Univ.-Prof. Bernhard Adler. Vorið 2009 útskrifaðist hún úr óperudeildinni en tók að því loknu eitt ár í ljóða- og óratoríudeild háskólans hjá o.Univ.-Prof.Ksgr. Marjana Burgstaller-Lipovšek.

Síðan Erla sneri aftur til Íslands hefur hún tekið virkan þátt í tónlistarlífinu og komið fram bæði sem klassísk söngkona og dægurlagasöngkona t.d. með hljómsveitinni sinni Dægurlagadraumum og ÞEJ tríói. Hún hefur sungið í tónleikaröðinni Lofað öllu fögru í Þjóðmenningarhúsinu, í tónleikaröð Bláu kirkjunnar á Seyðisfirði, í tónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar og tónleikaröðinni Klassík í Vatnsmýrinni og kemur reglulega fram sem einsöngvari bæði með einleikurum og kammerhópum bæði hér heima og erlendis. Erla var á árunum 2010-2014 fastráðin við kór Íslensku Óperunnar og Kammerkór Dómkirkjunnar. Sumarið 2013 var hún valin til að taka þátt fyrir hönd Austurlands í listaverkefninu Awakening of the Horsemen í Donegal á Írlandi og haustið 2013 var henni boðið að taka þátt í verkefni í Jersey: Elizabeth Castle Artist Lock In.

Frá 9 ára aldri hefur Erla tekið þátt í leiklistarstarfsemi, fyrst á vegum Leikfélags Fljótsdalshéraðs, en síðar Leikfélags Menntaskólans á Egilsstöðum, Leikfélags HÍ og Hugleiks. Sumarið 2008 var hún meðal 6 leikara sem fóru með leikrit fyrir hönd Ísland til Lettlands á NEATA-leiklistarhátíðina.

Árið 2010 hlaut Erla, ásamt austurrískum píanóleikara, styrk frá einkaháskóla Anton Bruckners í Linz til að taka upp og gefa út geisladiskinn Víravirki. Sá diskur kom út í október sama ár.

Frá 2008 til 2011 var hún styrkþegi og tónlistar­maður á vegum Live Music Now – sjóði Yehudi Menuhins. 


Hljóðdæmi:

  • Erla Dóra Vogler og Svanur Vilbergsson, gítarleikari, flytja þrjú spænsk þjóðlög (Canciones Espaniolas Antiguas) í útsetningu Federico Garcia Lorca í Þjóðmenningarhúsinu 2014.
  • Erla Dóra Vogler og Jón Hilmar Kárason, gítarleikari og þáttastjórnandi, flytja Komdu í kvöld (lag og texti Jón Sigurðsson. Tekið upp 2015).
  • Erla Dóra Vogler og hljómsveitin Dægurlagadraumar flytja Allt mitt líf (lag: Umberto Bindi, texti: Ólafur Gaukur Þórhallsson, Viðar Júlí Ingólfsson tók upp á tónleikum í Bragganum á Egilsstöðum sumarið 2017)


Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Powered by Karolina