Ingibjörg Dögg

Var aðstoðarritstjóri DV og sat í stjórn Útgáfufélagsins DV ehf. Hefur starfað sem blaðamaður frá árinu 2006, þegar hún hóf störf á Mannlífi. Tók þátt í stofnun tímaritsins Ísafold, ritstýrði Nýju Lífi, og um tíma Húsum og híbýlum, áður en hún færði sig yfir á DV árið 2010.

Var tilnefnd til verðlauna sem blaðamaður ársins 2011, fyrir fjölbreytt og mikilvæg skrif um samfélagsvandamál, svo sem ofbeldi, einkum er varða hlutskipti kvenna.

Var valin rannsóknarblaðamaður ársins 2010 fyrir áleitna og vandaða umfjöllun um kynferðisbrotamál og forystu um skrif á þessu sviði, svo sem um biskupsmálið og önnur meint kynferðisbrot innan kirkju og trúfélaga.

Fékk Jafnréttisviðurkenningu Stígamóta árið 2009 fyrir skrif í ýmsa fjölmiðla um fjölmargar hliðar kynbundins ofbeldis.

Á meðal mála sem Ingibjörg hefur fjallað um eru biskupsmálið, afdrif þeirra sem valda banaslysum í umferðinni, aðbúnaður aldraðra á elliheimilum, aðstæður súludansmeyja á Goldfinger og tengsl eigandans við bæjarstjórans. Þá hefur hún fylgt lögreglunni eftir um nokkurra daga skeið, varið fjórum dögum í Kvennafangelsinu, staðið í röð með bágstöddum í Fjölskylduhjálpinni, mætt vændiskaupendum á hótelherbergi og hangið með rónum til að kynnast sögu þeirra.

„Í störfum mínum sem blaðamaður hef ég lagt áherslu á að ræða við fólk um aðstæður þess og reynslu og setja í samhengi við samfélagið. Þannig hef ég reynt að gefa þeim rödd sem brotið er á og eiga sér jafnvel fáa málsvara. Um leið hefur tekist að opna á umræðu um ýmsa kima samfélagsins og vanda sem oft var áður lítið eða ekki í umræðunni.

Fyrir mér er mikilvægt að til sé miðill sem gerir blaðamönnum kleift að taka á málum með öðrum hætti en aðrir gera og opna á ný sjónarhorn, en er um leið áhugaverður og skemmtilegur. Til þess stofnuðum við Stundina. Við teljum ekki aðeins pláss fyrir slíkan miðil á markaði heldur beinlínis þörf fyrir hann.“

Karolina Fund ehf © 2022 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Powered by Karolina