Kristín Þóra Haraldsdóttir

Kristín Þóra Haraldsdóttir sinnir jöfnum höndum hlutverkum flytjanda, tónskálds og spunaleikara í tónsköpun sinni. Hún hefur m.a. skrifað tvö verk fyrir Sinfóníuhlómsveit Íslands, sem frumflutt voru á Tectonics tónlistarhátíðinni 2015 og Myrkum Músikdögum árið 2017 og kammeróperuna Blóðhófnir, við samnefndan ljóðabálk Gerðar Kristnýjar, sem frumflutt var á Listahátíð í Reykjavík árið 2016 og var valið á meðal 1100 umsókna til flutnings á MATA tónlistarhátíðinni í New York vorið 2019. Auk þessa hafa verk hennar fyrir smærri hópa hafa verið flutt á Íslandi, víða um Evrópu, mið-Austurlönd og Bandaríkin af Nordic Affect, XelmYa trio, Umbru, Kúbus, Israeli Contemporary Players og fleirum. Hljómsveitarverkið Water's Voice var valið sem framlag Íslands á International Rostrum of Composers í Tallin í Eistlandi árið 2015. Tónlist hennar við dansmyndina The Nordic Escape komst í úrslit á The Alternative Film Festival í Toronto veturinn 2017. Nálgun Kristínar í tónsmíðum sínum er gjarnan tilraunakennd og notast hún ósjaldan við spuna og umhverfishljóð í sköpun og flutningi verka sinna.

Kristín hóf hljómsveitarferil sinn með Helga og Hljóðfæraleikurunum og gekk seinna til liðs við Stórsveit Nix Noltes og hefur hún komið víða við síðan og leikið með hljómsveitum svo sem Mógil, Hljómsveit Hafdísar, Umbru, Marshweed, Moskvitsj Caput, SinfóníaNord og Sinfóníuhljómsveit Íslands, söngvaskáldum og spunaleikurum, ásamt því að hafa starfað með hópum tengdum leikhúsi og gjörningum. Kristín hefur frumflutt ný einleiksverk fyrir víólu á Myrkum Músíkdögum, Tectonics Glasgow, Jaðarberi og Dogstar hátíðinni í Los Angeles. Kristín flytur einnig eigin tónlist jafnt með víólu, rödd og öðrum hljóðfærum. Árið 2016 kom út plata með tónlist og hljóðmyndum hennar með gítar og umhverfishljóðum hjá VDSQ Records og veturinn 2019 kemur út hljómplata með Blóðhófni í flutningi Umbru.

Kristín kennir börnum og fullorðnum tónlist í heimastúdíói sínu og hefur ferðast m.a. til Grænlands og Palestínu til að kenna á tónlistarnámskeiðum. Hún hefur starfað sem leiðbeinandi við Upptaktinn - tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna og sinnt starfi prófdómara við útskriftarverkefni nemenda í Skapandi tónlistarmiðlun og NAIP-meistaranámi við Listaháskóla Íslands.

Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Powered by Karolina