Þorsteinn Eggertsson

  • Illustrator
  • Lyricist,
  • Play director
  • Reporter

Þorsteinn Eggertsson fæddist í Keflavík, 25. febrúar 1942. Tveggja ára flutti hann í Garð og ólst þar upp fram yfir fermingu, en flutti þá aftur til Keflavíkur. Fimmtán ára fór hann í landspróf í Héraðsskólanum að Laugarvatni og fór að syngja á skólaböllum við undirleik bekkjarfélaga síns, Ingimars Eydal. Lögin voru aðallega amerískt rokk og Þorsteinn samdi sína eigin texta, á íslensku við þau. Árið 1960 tók hann þátt í söngvarakeppni K. K. sextettsins og var í kjölfarið valinn sem söngvari við þá hljómsveit. Rúmu ári síðar (haustið 1961) var hann einn af stofnendum hljómsveitar í Keflavík. Hún fékk nafnið Beatniks og spilaði aðallega gömul rokklög á lofti veitingarstaðarins Víkur í Keflavík. 1963 fór hann til Danmerkur til náms í auglýsingagerð. Þar gerðist hann fréttaritari við Alþýðublaðið og tók m.a. viðtöl við The Beatles og The Rolling Stones og fór að syngja með dönskum hljómsveitum í Kaupmannahöfn, Hróarskeldu og víðar. Eftir heimkomuna til Íslands, 1965, fór hann að semja söngtexta fyrir Savanna tríóið, og Dáta. Það vatt upp á sig. Nú hafa meira en 500 af textum hans verið hljóðritaðir af Hljómum, Lúdó og Stefáni, Lónlí Blú Bojs, Brimkló, Júdasi og fjölda annarra hljómsveita og söngvara. 1969 var hann einn af stofnendum tímaritsins Samúels. Síðan hefur hann skrifað fjölda greina, stjórnað útvarps- og sjónvarpsþáttum, komið fram á fjölda tónleika og samið eigin músíksýningar. Hann er kvæntur Jóhönnu Fjólu Ólafsdóttur. Hún á þrjú börn og hann á tvær dætur. Saman eiga þau ellefu barnabörn.

Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Powered by Karolina