Þorgrímur Pétursson

  • Songwriter, guitarplayer

Að taka stökkið

Allt frá því að ég hóf tónlistarnám ellefu ára gamall hef ég verið að setja saman lög og búa til við þau texta, spila og syngja. Oftast einn með gítarinn en líka með hljómsveitum og í kór. Sköpunin er mér ekki aðeins uppspretta ánægju heldur nánast lífsnauðsyn. Til þess að geta haldið áfram að skapa þarf á endanum að taka stökkið og skila því af sér sem er tilbúið og liggur í skúffum sem nótur og stafir á blaði. Meðgöngutími þessa disks hefur verið býsna langur en nú finnst mér vera kominn tími til að gefa eitthvað af lögunum mínum út og komast að því hvort þau spjari sig úti í veröldinni. Þess vegna fer ég af stað með þetta verkefni og óska eftir aðstoð ykkar við að klára það. Markmiðið er að taka upp 10-12 lög til útgáfu bæði á geisladisk og rafrænt, þannig að kaupandi geti einfaldlega fengið sendan hlekk og halað þaðan niður lögunum.



Sögur, þjóðlagastíll og (djassað) popp

Hvað er svo um þessa músík að segja? Jú, þar sem ég hef alltaf haft mest gaman af lögum sem segja sögu þá lá beint við að sú yrði áherslan í minni textagerð. Sem dæmi má nefna að í laginu Farþeginn er sá sem situr í aftursæti leigubílsins Dauðinn sjálfur og Engill fjallar um fallinn engil sem er fastur á jörðu. Bráðin segir frá rjúpnaskyttu sem villist á heiði og Álög ill frá álfkonu sem sér sárlega eftir álögum sem bitna á þeim sem síst skyldi. Önnur lög segja sögur af afturgöngum, flóttafólki og ferðalagi til Vesturheims svo eitthvað sé talið.

Þessi margbreytilegu umfjöllunarefni kalla á mismunandi tónlistartegundir og útsetningar og því eru lögin fjölbreytt. Sum eru í þjóðlagastíl, önnur eru djass-skotið popp og sumum mætti lýsa sem venjulegum popplögum. Útsetningarnar eru allt frá því að vera einfalt gítarundirspil og upp í flóknari útsetningar með strengjum, flautu og blásturshljóðfærum.



Upptökur og tónlistarfólk

Ég spila sjálfur á gítar í öllum lögunum en hef verið svo heppinn að fá til liðs við mig frábært tónlistarfólk sem leikur á ýmis hljóðfæri af mikilli snilld. Upptökurnar fara fram í Stúdíó Paradís í Reykjavík og upptökustjóri er Jóhann Ásmundsson, liðsmaður Mezzoforte, sem spilar að sjálfsögðu á bassa ásamt hljómborði og rafmagnsgítar. Sonur hans, Ásmundur Jóhannsson trommuleikari, sér um trommuleik og ásláttarhljóðfæri ásamt því að aðstoða föður sinn við upptökunar.

Aðrir sem við sögu koma eru söngkonan Sara Blandon sem syngur í lögunum Norðurljósin, Álög ill og Appolónía Schwartzkopf og lagi sem enn hefur ekki fengið heiti. Einnig spila frændur mínir Jón Guðmundsson flautuleikari og Stefán Jón Bernharðsson hornleikari í nokkrum laganna og sömuleiðis sellóleikarinn Örnólfur Kristjánsson. Í laginu Dauðagil fékk ég félaga mína úr Kirkjukór Laugarneskirkju til að syngja bakraddir og Elma Atladóttir sópran setur skemmtilegan svip á lagið. Á saxafón og klarinett leikur hinn sænski Jonas Wall sem hefur verið að spila með Mezzoforte að undanförnu í tónleikaferðum sveitarinnar vítt og breitt um heiminn.



Staða Álaganna

Upptökurnar í Stúdíó Paradís eru langt komnar undir styrkri stjórn Jóhanns Ásmundssonar. Enn eru þó nokkrir tímar í hljóðveri eftir, einnig eftirvinnsla á upptökunum og að lokum sjálf framleiðslan á disk og umslagi. Mags Nisbet-Macfarlane, skosk myndlistarkona og þjóðlagamúsíkant, hefur tekið að sér að teikna myndir fyrir umslagið og þegar þær eru tilbúnar þarf að hanna og prenta umslög og textabók. Efst á síðunni getur að líta skissur Mags, unnar út frá umfjöllunarefni textanna.

Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Powered by Karolina