Una Jónsdóttir

Í samvinnu við útgáfuna Skruddu er ég að safna fyrir útgáfu á seinna bindi íslenskrar revíusögu eftir mig, bókinni „Silfuröld revíunnar“. Revíur eru gamanleikrit sem gera grín að samtímanum, jafnvel að nafngreindum stjórnmálamönnum eða öðru þekktu fólki. Oftast eru söngvar í revíum og hafa sumir orðið þekktir. Fyrra bindið, „Gullöld revíunnar“ kom út 2019. Í þeirri bók er fjallað um íslenskar revíur 1880-1957, meðal annars þann tíma sam kallaður var „gullöld revíunnar“ á Íslandi, en þá voru m.a. sýndar revíurnar „Haustrigningar“, „Hver maður sinn skammt“ og „Allt í lagi, lagsi“ og samdir þekktir revíusöngvar eins og „Tóta litla tindilfætt“ og „Ég hef elskað þig frá okkar fyrstu kynnum“.

    Seinni bókin, sem nú er safnað fyrir, á að heita „Silfuröld revíunnar“. Þar er fjallað um íslenskar revíur 1957-2015. Margir halda að revíusýningar hafi liðið undir lok á þessum tíma, en í rauninni er öðru nær. Flestir þekktustu gamanleikarar þessara ára, svo sem Bessi Bjarnason, Laddi, Edda Björgvinsdóttir og Spaugstofumenn, tóku einhvern tíma þátt í revíusýningum. Í bókinni verður einnig fjallað um söngleiki Jónasar og Jóns Múla Árnasona, svo sem „Deleríum búbónis“ og „Rjúkandi ráð“, en þessi leikrit hafa stundum verið kölluð revíur, og söngvar úr þeim eru alþekktir, svo sem „Einu sinni á ágústkvöldi“ og „Fröken Reykjavík“. Rakinn verður söguþráður nokkurra helstu revíanna 1957-2015, fjallað um viðtökurnar sem þær fengu og birtar margar myndir úr þeim. Fyrstu áramótaskaupin koma líka við sögu. Þá verða í bókinni niðurstöður fyrir allt verkið og listi í tímaröð yfir allar íslenskar revíur sem vitað er um 1880-2015.

 

Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Powered by Karolina