Pétur Halldórsson

Náttúrubarn sem er alltaf á hjóli, syngur í kór og talar fyrir meiri skógi jarðarbúum til heilla

  • Tenor
  • communicator
  • choir
  • Forestry
  • Radio
  • Bicycling
  • Text editing
  • Brain stormer

Ég er einn af stofnfélögum Hymnodiu. Við settum þennan hóp saman fyrir tólf árum, árið 2003. Þá vorum við bara átta og ætluðum að hafa þetta lítið og þægilegt. En þar kom að okkur langaði að syngja verk sem kröfðust fleiri radda og þá stækkuðum við kórinn. Nú eru 19. félagar í Hymnodiu með stjórnandanum, Eyþóri Inga Jónssyni. Við höfum sungið tónlist frá öllum tímabilum tónlistarsögunnar og finnst skemmtilegast að eiga við erfið og krefjandi verkefni, hvort sem það eru eldri verk eða nútímaverk og það er ekki verra ef við fáum að spinna við verkin eða búa eitthvað til úr þeim sem ekki er endilega á nótnablöðunum. Sjálfur er ég bara lítið lærður viðvaningur í tónlist en hef sullast í kórsöng í bráðum 30 ár. Þetta er orðið hluti af mér og nauðsynlegt til að halda andlegri heilsu og styrk. Hymnodia er líka svo frábærlega skemmtilegur hópur fólks af margvíslegum toga, fólks sem tekur sig ekki of alvarlega og nýtur þess bæði að flytja tónlist og vera saman.

Þessa mynd tók Eyþór af mér í Ketilhúsinu á Akureyri rétt fyrir tónleika á Akureyrarvöku sumarið 2015. Í þessari lopapeysu var ég á brúðkaupsdaginn í Laufási við Eyjafjörð í júlí 1999 þegar ég giftist Jóhönnu minni.

Hér vorum við að æfa fyrir þessa sömu tónleika og fyrir neðan er mynd af tónleikunum. Gaman að fá svona marga til að hlusta.

Sjálfur var ég lengi útvarpsmaður og bjó til útvarpsþætti á Rás 1 og fyri svæðisútvarpið á Norðurlandi, Útvarp Norðurlands. Nú er ég kynningarstjóri hjá Skógrækt ríkisins sem er frábærlega uppbyggilegt starf á tímum loftslagsbreytinga þegar miklu skiptir að efla gróður jarðarinnar og binda þann koltvísýring sem mannkynið hefur losað út í andrúmsloftið frá risi nútíma efnishyggju. Þarna er ég í rúmenskum frumskógi í nóvember 2014.

Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Powered by Karolina