Sigrun Huld Thorgrimsdottir


Ég lauk prófi í hjúkrun frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1984, tveim árum áður en sá skóli var lagður niður og allt hjúkrunarnám færðist yfir í háskólann. Síðan starfaði ég við hjúkrun bæði hérlendis og erlendis, en lengst af í húsinu sem ýmist hét Borgarspítali eða Sjúkrahús Reykjavíkur og síðar meir Landspítalinn Fossvogur (held ég). En um síðustu aldamót flutti ég mig yfir í öldrunarþjónustu, eiginlega af tilviljun, en uppgötvaði fljótlega að mig langaði til að helga þeirri þjónustu krafta mína. Mér rann til rifja gleðileysið sem ég kynntist í stofnanatilverunni og hafði ekki minnstu hugmynd um hvað ég gæti gert til að breyta því og fór þess vegna í háskólann og lauk þaðan meistaraprófi árið 2008. Ég fékk í framhaldinu titil sem "sérfræðingur í öldrunarhjúkrun með áherslu á geðheilbrigði" frá sjálfu landlæknisembættinu. Ég hef reyndar aldrei fengið neina stöðu eða verkefni að heitið geti út á þennan titil, en á hann þó innrammaðan. Meistaraverkefnið mitt fjallaði um notkun minninga og lífssögu í öldrunarþjónustu og ég starfrækti minningahópa öll árin sem ég vann á Landakoti og fékk í gegnum það áhuga á að öll öldrunarþjónusta ætti að vera persónumiðuð - ekki bara sniðin eftir þörfum heldur líka þekkingu á lífshlaupi einstaklingsins eftir því sem hann eða hún leyfir, þekkingu á persónunni. Þetta er sérlega mikilvægt þegar um er að ræða fólk með heilabilun en ég hef fengið æ meiri áhuga á þeim hluta þjónustunnar.

Í tengslum við meistaraverkefnið mitt varð til bókin "Þegar amma var ung. Mannlíf og atburðir á Íslandi 1925–1955" (Salka 2010), sem var hugsuð sem hjálpartæki við minningavinnu og hefur raunar verið notuð sem slík. Auk þessarrar bókar hef ég skrifað fjölda greina í blöð og tímarit um öldrunarmál og öldrunarhjúkrun.

Fyrir utan þetta stóra áhugamál hef ég alltaf haft yndi af útivist og gönguferðum og sendi frá mér bók sem heitir "Fjallabók barnanna", sem lýsir 20 gönguleiðum í námunda við höfuðborgina, hentugum fyrir börn á aldrinum sex til sextán - og auðvitað alla aðra. Hún kom út hjá Sölku 2011.

Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Powered by Karolina