Konráð Sigurðsson

Rithöfundur

Konráð Sigurðsson heiti ég og er höfundur barnabókanna um Jóa kassa. Ég byrjaði að skrifa söguna um Jóa Kassa þegar sonur minn var 1 árs en í dag er hann orðinn 15 ára gamall. Hann hefur veitt mér mikinn innblástur með bækurnar. Ég gekk alltaf með þann draum í kollinum að gefa bækurnar út svo að fleiri börn gætu notið ævintýra Jóa Kassa. Árið 2008 fékk ég teiknarann Þóri Karl Celin til að gefa sögupersónum bókanna líf og eru teikningar hans einstaklega litríkar og skemmtilegar og byggðar á skissum eftir mig. Eftir að hafa reynt að fá útgefendur til samstarfs án árangurs ákvað ég að gefa fyrstu bókin út sjálfur árið 2010 og aðra bók árið 2011. Árið 2012 vildi Iðnú (iðmennt) gerast útgefandi að næstu þremur bókum. Slitnaði svo upp úr samstarfinu vegna breytinga innanhúss hjá Iðnú og hef ég séð um útgáfu síðan. Jói Kassi sleit barnsskónum fyrir stuttu og er kominn á skólaaldur en fimm ár eru síðan fyrsta bókin kom út. Í dag eru þær orðnar átta talsins: sex ævintýrabækur og tvær hliðarsögur sem eru litabækur og jólasögur. Bækurnar henta öllum krökkum á aldrinum 3-8 ára. Sögurnar eru stakar en tengjast samt hvor annarri og mynda eitt heildarævintýri. Hugmyndin um Lepp Víðförla og sögurnar hans urðu til þegar ég skrifaði síðustu bókina í Jóa Kassa seríunni. Þar hittast þeir Jói og Leppur í stutta stund og Leppur segir Jóa frá ævintýrunum sínum í mjög stuttu máli. Það varð kveikjan að nýjum bókum sem fjalla um hann Lepp. Eru þær hugsaðar sem einskonar hliðarsögur út frá Jóa Kassa bókunum. Eldfjöll, sjóræningjar, sjóræningjaskip, herforingjar, kúrekar, indjánar, eyðieyjur, bófar og ræningjar munu koma við sögu í bókunum um Lepp Víðförla.

Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Powered by Karolina