Valgeir Guðjónsson

  • Musician, composer, writer, performer, educator

Valgeir Guðjónsson /
Tímabæri lagabálkurinn...

Ég dróst ungur að bókum og tónlist og komst snemma að því að gerð laga og síðar texta lá vel fyrir mér. Sú ástríða hefur getið af sér stóran bálk allskonar sköpunarverka. Önnur ástríða er inni í myndinni - sú að flytja lög mín og texta fyrir fólk við ýmsar aðstæður. Þar spilar inn í sú einstaka stemning og tilfinning sem fylgir því þegar ósýnileg tenging myndast milli flytjanda og áheyranda. Henni verður seint lýst að fullu með orðum.

"Tímabæri ljóðabálkurinn" er safn laga minna og hugmynda sem ég held sjálfur mikið upp á, en hef ekki lagt á borðið enn. Lög og textar sem ég er sáttur við; viðleitni til segja eitthvað sem skiptir vonandi einhvern ofurlitlu máli.

Ég fæ til liðs við mig fólk sem ég þekki og treysti til að umvefja verkið með hæfileikum sínum og sköpunarkrafti.
Verkið er í stöðugri mótun og mig langar að gefa áhugasömum kost á að fylgjast með ferlinu, gefa viðbrögð, gera athugasemdir og þar fram eftir götunum.
Að framkvæma verkefnið á vettvangi Karolina Fund skapar spánýja og ferska tengingu við fólkið sem mig langar að hreyfa við. Útgáfa tónlistar hefur löngum verið býsna ópersónuleg aðgerð - vinna í einangrun sem skilar sér að lokum í næfurþunnu birtingareintaki sem er ofurselt duttlungum svokallaðs markaðar.

Í þetta sinn langar mig að freista þess að gera þetta ferli ánægjulegra og ná ögn nánara sambandi við þá sem vilja taka þátt í ævintýrinu. Vonandi verður þú hluti af þeirri heild.

Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Powered by Karolina