Ég heiti Ásþór Björnsson og er 19 ára tölvunarfræðinemi við Hafnarháskóla í Danmörku, og CTO og stofnandi Label ehf. Ég hef gífurlegan áhuga á stærðfræði, forritun og frumkvöðlastarfsemi, og er stöðugt að leita mér að verkefni tengdum þessum sviðum. Ég hef verið í ólympíuliði Íslands í keppnisforritun og vélmennaforritun auk þess að keppa fyrir Ísland í JA Europe frumkvöðlakeppninni eftir að sigra frumkvöðlakeppni framhaldsskóla hér á landi. Auk þess má nefna að ég er yngsti stúdent allra tíma á Íslandi.
Milli 13 og 14 ára aldurs sótti ég nám við alþjóðlegan skóla í Hollandi, og var það mjög krefjandi. Þegar ég sneri aftur til Íslands hafði ég þó gott forskot á flesta jafnaldra mína og kláraði því grunnskólann ári fyrr. Þar eftir byrjaði ég nám við K2 brautina í Tækniskólanum, en þar fann ég fjöldamörg tækifæri og var það gott umhverfi til að halda áfram að þróa mína hæfileika. Með skólanum byrjaði ég að smíða alls konar lítil rafmagnstæki og vélmenni, og hélt ég þess vegna námskeið í Tækniskólanum í vélmennasmíðum. Út frá því komu upp mörg tækifæri, meðal annars varð ég hluti af því að stofna forritunarsumarbúðir í Þykkvabæ, þær fyrstu síðan 1989. Samtímis var ég líka að vinna við Háskólann í Reykjavík sem forritunarkennari í Skema.
Ég kláraði stúdentinn tveim árum fyrr og útskrifaðist 16 ára úr Tækniskólanum, auk þess að hafa tekið tvo kúrsa úr Háskólanum í Reykjavík. Á mínu síðasta ári í menntaskóla hafði ég margt fyrir stafni; eftir mikla þjálfun var ég kominn í landslið íslands í keppnisforritun og vélmennaforritun, og ferðaðist til Eistlands, Azerbaijan og Dubai að keppa í þessum greinum. Auk þess hafði ég stofnað mitt eigið fyrirtæki, Ró-box, sem sigraði frumkvöðlakeppni framhaldsskólanna, ég var meðlimur í Ungmennaráði Heimsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna, stundaði Jazz-píanónám við TFÍH, og var keppandi í Gettu Betur fyrir Tækniskólann. Hendum ofan á það tvo háskólakúrsa og tvær 75 eininga menntaskólaannir.
Þessa dagana er ég búsettur í Kaupmannahöfn, þar sem ég stunda nám við hinn háttvirta Hafnarháskóla og hef auk þess verið að vinna sem forritari hjá tölvuleikjaframleiðandanum IO Interactive og nýlega hjá gervigreindarfyrirtækinu SupWiz. Nýlega hef ég þó stofnað fyrirtækið Label ehf. með félaga mínum, Arent Orra, og erum við með söfnun hér á Karolinafund: https://www.karolinafund.com/project/view/3450. Hlakka til að sjá ykkur þar!