Arent heiti ég og er 19 ára Reykvíkingur. Ég er framkvæmdastjóri og stofnandi Label ehf. Vinir mínir lýsa mér sem framsæknum orkubolta og ég get ekki með neinu móti neitað þeirri lýsingu enda er ég í essinu mínu undir álagi og verð helst að hafa mikið að gera.
Árið 2014 fluttist ég til Eþíópíu með fjölskyldu minni en pabbi vann þá í jarðhitaverkefni á hálendi Afríkuveldisins. Þar sótti ég alþjóðlegan skóla og var námið krefjandi. Eftir árslanga dvöl flutti ég aftur heim en fékk þá að klára 9. og 10. bekk í grunnskóla samtímis og útskrifaðist því ári áður en jafnaldrar.
Að grunnskóla loknum láu öll vötn til Þingholtsstrætis en þá hóf ég nám við Menntaskólann í Reykjavík. Í MR tók ég virkan þátt í félagslífinu, m.a. lék í leikritum Herranætur og Frúardags, skipulagði ótal viðburði og annað sem fylgir félagslífi menntskælinga. Lauk ég stúdentsprófi þaðan um vorið 2020.
Eftir MR hóf ég nám við Lagadeild Háskóla Íslands og kláraði fyrsta ár Bakkalárs-gráðunnar síðasta vor (2021). Þrátt fyrir einkennilegt skólaár er ég virkur í félagslífinu en er m.a. Vice President of Marketing í ELSA Iceland, samtök Evrópska laganema (European Law Students Association).
Samhliða námi hef ég stúderað fjárfestingar og þá sérstaklega virðisstefnu Benjamin Graham en vel hefur gengið. Í raun hefur gengið svo vel að nú er ég svokallaður "Popular Investor" á miðlinum Etoro, þar sem fólk fylgir mér og þó nokkrir "herma" (e. copy) eftir mér, þ.e.a.s. mínar fjárfestingar verða samstundis þeirra fjárfestingar. Hægt er að sjá aðganginn minn hér: https://www.etoro.com/people/arentorri
Snemma varð ég ástfanginn af viðskiptum, en ég hef ekki tölu á því hversu oft ég og félagar mínir í æsku ætluðum okkur sigurför um heiminn með viðskiptahugmyndum. Hugmyndirnar voru misgóðar (allar stórkostlegar að mínu mati en það er annað mál) en fjármagn, þ.e. skortur á því, og aldur til þess að hugmyndirnar góðu urðu aldrei að veruleika.