Þórhildur Örvarsdóttir

Ég hef alla tíð verið umvafin tónlist. Það kom því ekki neitt annað til greina en að verða tónlistarmaður þegar ég yrði stór. Söngurinn heillaði mig snemma og mjög ung vissi ég innst inni að það yrði mitt hlutskipti, að verða söngvari. Þear ég var 17 ára fór ég í fyrsta söngtímann hjá Jóhönnu Linnet í Fíh og þar opnaðist mér nýr heimur. Ég fékk vissulega að syngja popp og rokk en klassíkin var það sem allt í einu varð heillandi, áskorunin við að læra nýja hluti, sökkva sér ofan í nýtt tónmál og ókunn tungumál. Þar hófst það og ég lærði söng bæði í Tónlistarskólanum á Akureyri og Söngskólanum í Reykjavík þaðan sem ég útskrifaðist árið 2000.
En ástin á dægurtónlist hvarf ekki og ég var óþægur nemandi sem aldrei gat haldið sig almennilega við efnið heldur þurfti líka að vera að syngja inná hinar og þessar plötur og troða upp á skemmtistöðum á kvöldin. Það er þessi óþægð sem hefur staðið hvað mest með mér í mínu starfi sem tónlistarmaður, það að hafa ekki fest mig í einum ákveðnum stíl hefur gert mig að betri og víðsýnni músíkanti. Þessi óþægð rak mig líka áfram í framhaldsnám í Complete Vocal Institute, nýjum og byltingarkenndum skóla, þar sem kennd er raddtækni þvert á allar stefnur og stíla. Þaðan lauk ég kennaraprófi árið 2008 og hef síðan kennt og raddþjálfað á öllum skólastigum frá grunnskólabörnum upp í háskólanema, byrjendum til reyndra atvinnusöngvara, frá klassík yfir í þungarokk. Óþægðaranginn getur ekki beðið um meira!

Um það leyti sem ég er að fara út í nám byrjar samstarf okkar Atla bróður míns sem þá var að koma sér fyrir sem kvikmyndatónskáld í Hollywood og átti það eftir að vinda heldur betur upp á sig. Fyrsta myndin sem ég söng inná hét The Last Confederate og ég fann strax að þarna gæti ég mögulega nýtt reynslu mína úr ólíkum tónlistarstefnum hvað best. Fljótlega bættust fleiri myndir við og þær voru úr öllum áttum og hverri þeirra leyndist ný áskorun, ný hlið á mannlegri tilveru sem þurfti að túlka með tónum og undantekningalaust án nokkura orða. Það eru orðnir margir þættir, tölvuleikir og myndir sem ég hef sugnið inn á fyrir Atla og má þar t.d. nefna Thick as Thieves, Babylon A.D., The Eagle, The Fourth Kind, Mortal Instruments og Bilal sem enn er óútkomin. Samstarfið við Atla hefur verið einstaklega gott og gefið mér tækifæri til að sérhæfa mig í geira sem mig annars hefði ekki órað fyrir að væri til. Í gegnum hann urðu líka til sambönd við önnur tónskáld og fékk ég meðal annars tækifæri til að vinna með Hans Zimmer að Súperman myndinni Man of Steel og með Junkie XL að 300:Rise of an Empire.

Árið 2002 ákvað ég að að stofna þjóðlagasveit þar sem ég hafði lengi heillast af íslenskum þjóðlögum og þjóðlagahefð annara landa. Ég hóaði saman frábærum en ólíkum tónlistarmönnum þeim, Halldóri G. Haukssyni, Stefáni Ingólfssyni og Kristjáni Edelstein og úr varð hljómsveitin Mór. Úr varð einhverskonar tónlistarlegur bræðingur og vöktum við athygli hvar sem við fórum og spiluðum víða. Hljómsveitin starfaði í nokkur ár og gaf út plötu árið 2006.
Eftir vinnuna við The Eagle 2010 kynntist Atli írskum bræðrum þeim Flaithri og Eoghan Neff og spiluðu þeir mikið inná það soundtrack. Einhvernveginn var ekki annað hægt en að halda áfram samstarfi við þá bræður og fékk ég að vera með í því. Úr því samstarfi varð til hljómsveitin Torrek sem fléttar saman íslenska og keltneska hefð á nýstárlegan hátt.

Sem söngvari í litlu samfélagi eins og Ísland er þá er fjölhæfni eiginleiki sem mikilvægur er í því að lifa af sem tónlistarmaður. Það er einhvernveginn þannig að hvað sem trúarsannfæringu okkar líður verður kirkjan oft umgjörð utan um viðkvæmar og mikilvægar stundir í lífum okkar. Þangað förum við mjög flest til skírna, ferminga, giftinga og jarðarfara. Ég hef verið svo heppin að fá að starfa mikið við slíkar afhafnir og eignast þannig ofurlitla hluttekningu í lífum fólks bæði á sorgar-og gleðistundum. Það er ótrúlega gefandi og dýrmætt og manni finnst maður geta gefið af sér til þess samfélags sem maður lifir í. Í þessum verkefnum hefur minn helsti samstarfsmaður verið Eyþór Ingi Jónsson organisti og kórstjóri í Akureyrarkirkju, sem einnig er með mér við gerð nýju jólaplötunnar.

Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Powered by Karolina