Bókin „Hin hálu þrep“ segir frá lífshlaupi mínu sem er einstakt til frásagnar, erfiðri æsku, bernskudraumi sem var harðsóttur, vímuefnaneyslu og ofneyslu á LSD sem leiddi til geðklofa, manndrápi, veru á réttargeðdeildum, endurreisn og sigrum. Bókin á erindi inn á umræðuvettvang dagsins í dag.
... read more

NOT FUNDED

This project was not funded or cancelled.

€341

raised of €2,200 goal.

0

days to go.

16% FUNDED
No rewards exist or campaign is not public. Log in to add or edit rewards.
Get this! All gone!

Pledge € {{ reward.amount }} {{ reward.amount * 150 }} ISK


{{ reward.title }}

{{ reward.description }}

Limited ({{ stockLeft }} left of {{ reward.stock }} ) Gone (0 left of {{ reward.stock }} )
{{ reward.stock_reserved }} backer {{ reward.stock_reserved }} backers
Get this!

Pledge without a reward

Team

Bjarni Bernharður

Rithöfundur
Poet

Further Information

„Hin hálu þrep“ sem er frásögn af lífshlaupi mínu, en ég hef þrætt öngstræti tilverunnar og hef frá ýmsu að segja. Bókin rekur sögu mína allt frá bernsku til dagsins í dag. Ég segi á opinskáan hátt frá lífi mínu og dreg hvergi undan, fjalla um viðkvæm mál í lífi mínu, mál sem varðar alla, eins og geðsjúkdóma, vímuefnaneyslu, glæp og innilokun á réttargeðdeild. Þetta er saga listamanns, skálds og málara, manns sem átti sér bernskudraum, draum sem var harðsóttur. Þetta er saga sigurvegara. Ég hvet fólk til að lesa þessa bók.

Úrdrættir úr bókinni

Hann hafði í lífi sínu lifað að mestu í eigin hugarheimi og var fölnandi blóm á akri lífsins en hafði þó alltaf fundið í brjósti sínu streng, óræða rödd sem hvatti hann til að leita sinnar réttu tilveru og bugast ekki þrátt fyrir mótlætið. Þessi strengur, þessi rödd, auðgaði hugsun hans í einverunni og ýtti undir þær tilfinningar að berjast fyrir sinni réttmætu stöðu í hinum harða heimi. Hannvar þess alltaf fullviss að þótt honum væri ætlað að bera þungar byrðar myndi hann sigra að lokum. Í sálu sinni fann hann fyrir uppljómun sem gaf honum trúfestu. Sterkur myndheimur tengdi vitundarlífið við þessar óljósu væntingar og styrkti hann í leitinni að sjálfum sér. Það voru hugmyndir sem brotnuðu í hinum síbreytilega heimi sköpunar. Hann hafði sem barn fært hugmyndir sínar í ljóðform og óbundið mál. Var það þráður sem hann ríghélt í og trúði á. Hinar niðurdrepandi aðstæðurí þorpinu höfðu gert honum ljósa hina gullvægu staðreynd: Að hann yrði að leika af fingrum fram til að yfirvinna niðurlæginguna, yrði að klæða persónuleika sinn í gervi trúðsins til að komast framhjá hindrunum og áföllum.

Ég yfirgaf þorpið léttur í spori, ekki sár eða reiður, heldur með bjartsýnina ífarteskinu, með ljós sannleikans í brjósti – sannleika sem ég einn vissi.

*

Nótt eina yfirgaf stúlkan óvænt herbergið. Ég hafði rumskað þegar hún fór og þótti eitthvað bogið við för hennar og fór því á eftir henni. Ég fann hana í rjóðri einu þar skammt frá og spurði hana hvað hún aðhefðist. Hún bar stóran dálk við belti og án þess að svara spurningu minni vatt hún sér aftur fyrir mig, dró dálkinn úr slíðrum og brá að hálsi mínum. Ég fann fyrir flugbeittri egginni og beið þess er verða vildi, en þá bráði skyndilega af stúlkunni og hún slíðraði hnífinn. Stúlkan dvaldi hjá mér í herberginu nokkra daga eftir þetta uns hún kvaddi mig einn morgun og sagðist eiga von á vini sínum frá Íslandi og ætluðu þau að hittast á Ráðhústorginu.Tveimur dögum síðar fór mig að gruna að ekki væri allt með felldu og undir miðnætti lagði ég leið mína upp á Ráðhústorg til að grennslast fyrir um stúlkuna. Þá sá ég hana standa stjarfa á miðju torginu og stara út í myrkrið.Mér tókst að ná til hennar og leiddi hana inn Strikið og fylgdi lögreglubíll áhæla okkar. Þegar kom að næsta torgi náði ég í leigubíl sem ók okkur niður í Kristjaníu.

*

Ég var með rottuandlit. Útskúfaður hraktist ég um götur og fann leggja kaldan straum í hnakkann. Ég kom að kunnuglegu húsi og drap á dyr. Unglingsstúlka kom til dyra og ég bað um að fá að koma snöggvast inn fyrir. Það kom smá hik á stúlkuna en síðan hleypti hún mér inn. Ég settist við eldhúsborðið en átti í erfiðleikum með rottuandlitið. Gömul kona kom fram úr stofunni án þess að virða mig viðlits eða bjóða góðan daginn. Ég drakk kaffið og íhugaði hvort fólkinu væri ljós áskapnaður minn, rottuandlitið. Nóttin hafði verið mér þung í skauti. Ég hafði staðið í almenningsgarðinum og horft upp í festinguna. Það hafði verið norðanátt, kalt og hjarn yfir öllu. Stjörnuskarinn hafði dansað um himinhvolfiðlíkt og fiðrildasveimur. Ég hafði reynt ákaft að berja niður ófögnuðinn sem sótti að mér utan úr köldum geimnum en í birtingu hafði morgunstjarnan brugðið á mig rottuandlitinu. Þessa nótt hafði svarta stjarnan vélað svo um að hún fengi sál mína í skiptum fyrir að barni myrkursins yrði fyrirkomið ...

*

Næsta dag hitti ég aftur kunningja minn í Kristjaníu og keypti af honum tvær svartar sýrur og fjögur grömm af hassi. Þegar heim kom, eftir að hafa komið við hjá kaupmanninum á horninu og keypt slatta af bjór, dró ég tjöldin fyrir gluggana, setti rokktónlist á fóninn og droppaði sýrunni. Ég beið áhrifanna; hlustaði á tónlist, reykti hass og drakk bjór. Ekki var alveg laust við að ég væri haldinn ofurlitlum kvíða um hvernig trippið myndi þróast, hversu stórbrotin áhrif sýrunnar yrðu. Allir sýruneytendur eru að leita eftir hinu fullkomna trippi. Það tekur hálftíma að finna fyrir fyrstu áhrifum, djúpum seyðingi í líkamanum.Ef mikið stríknin er í sýrunni sprettur fram sviti í fingurgómum og streitueinkenni faraum líkamann. Þegar áhrifin brjótast fram er það dagljóst. Hin staðfasta raunmynd hugans víkur fyrir brengluðum hughrifum. Litir verða hráir og leka á fleti sínum, form og línur sveigjast. Hugur sýruneytandans er á sjálfhverfum þeytingi og skynjar ekkert utan þess. Sýran gerir líkamann ofurnæman og skerpir öll skynfæri. Hugsanaferlið, sem sýran kallar fram, er sundurslitið, hugartengslin geta virst rökvís og heil en eru í raun í bjagaðri mynd fáránleikans. Mikið ójafnvægi er algengt í framvindu sýrutripps og útilokað aðreikna út hvernig niðurferðin verður.

Þessi sýrunótt í kjallaraíbúðinni á Austurbrú var mér erfið. Það var minn háttur þegar ég droppaði sýru að loka mig af og kafa djúpt í hugarheiminn. Ferðir út um borgina á sýru var ekki það sem ég sóttist eftir. Slíkt fannst mér eyðilegging á góðu sýrutrippi.

Svarta sýran sem ég droppað þetta kvöld varí öflugri kantinum. Um miðbik trippsins missti ég stjórn og litlu munaði að ég týndi mér í myrkum afkima. En að lokum tókst mér að þræða mig um hina hálu stigu uns hugurinn tók að þjappa eðlilega og hugsunin flaut vel. Um morguninn, á niðurferðinni, fór allt á súrrandi sveiflu og ég týndist í geðklofa.

Ég hafði lent á vondu trippi, lent inn á einni af blindgötum sýrunnar og næstu tvær vikur voru skelfilegar. Meðal annars fékk ég þær hugmyndir að rafmagnskerfi í íbúðinni væru ekki eins og vera bæri og losaði um utanáliggjandi leiðslur og tengdi þærað nýju. Þá tók ég til við að skrúfa sundur eldhúsinnréttinguna og reyna aðsetja hana saman á annan máta. Svona þvældist ég fram og til baka dögum saman með sjálfan mig – á arfa sýrurugli. Mér fundust vondir straumar koma frá íbúum hússins og skrúfaði gasleiðsluna frá eldavélinni þannig að gasið streymdi óhindrað út í andrúmsloftið, því næst kveikti ég á kerti í innsta herberginu og yfirgaf íbúðina. Þegar ég kom aftur að húsinu tveim tímum síðar og sá að ekki hafði orðið sprenging festi ég leiðsluna aftur við eldavélina og slökkti á kertinu.

Citroën bragginn var geimvagn sem hægt væri að ferðast á fram og aftur í tímanum, eða inn í aðrar víddir, og fór ég margar slíkar ferðir á bílnum. Geimverur heimsóttu mig reglulega í kjallaraíbúðina og hafði ég mikila ánægja af félagsskap þeirra. Ég var lífvera frá fjarlægu sólkerfi sem væri fangi á jörðinni en þess yrði skammt að bíða aðég yrði frelsaður af geimverum. Margar álíka hugmyndir dúkkuðu upp og mögnuðu upp trylling minn.

Hann, sem ekki fyrir alls löngu var maður heill á geði, braust nú um í fjötrum sturlunar. Í garð gengu viðsjálir tímar, tímar heiftarlegrar paranoju og geðklofa þar sem oft stóð tæpt og litlu mátti muna að hann sogaðist niður í hringiðu endanlegrar tortímingar. Sýran hafði lokkað hann fram af brúninni

*

Kvöld eitt í nóvember 1988 fór ég á fund kunningja míns og keypti af honum talsvert magn af sveppum. Það voru sveppir tíndir á íslenskri grundu og þurrkaðir. Ég innbyrti þegar þrefaldan skammt og ók skömmu síðar heim á leið. Á leiðinni heim komst virkni sveppanna í algleyming og ég ók undir miklum ljósagangi af himni. Þaðvoru rauðar og grænar ljóskeilur sem klufu himinhvolfið og taldi ég fullvíst að þar færi floti geimskipa að koma inn til lendingar. Nóttina, sem í hönd fór í íbúðinni, var ég undir sterkum áhrifum af sveppunum og um morguninn var líkamiminn eins og logandi eldstólpi og tryllingslegar geðsveiflur höfðu heltekiðhuga minn.

Um kvöldið var ég orðinn yfirvegaðri og hringdi í kunningjakonu mína og boðaði komu mína með vatnslitamynd sem ég ætlaði að færa henni að gjöf. Varð hún glöð við og bauð mig velkominn. Ók ég þá sem leið lá í Austurbæinn. Ég settist inn í eldhús hjá henni og eftir aðhafa drukkið kaffi spurði ég hvort henni væri það á móti skapi að taka af mér ljósmynd. Kvað hún sér það einkar ljúft og sótti myndavél. Stóð ég þá upp frá borðum og dró hníf úr slíðrum og bað hana að taka mynd af mér þar sem ég stæðimeð hnífinn reiddan í hendi. Undirmiðnætti greip mig sú hugmynd að heimsækja gamla leigusalann í vesturbænum. Ég rölti niður á Hlemm og tók leigubíl. Þegar þangað kom sá ég að það var ljós í glugganum hjá þeim gamla. Ég hringdi bjöllunni og kom húseigandinn til dyra og bauð mér að ganga í bæinn.

Það hafði rökkvað í sál hans þetta kvöld. Hann hafði gengið út í nóttina án þess að vita hvert fæturnir myndu að endingu bera hann. Hann hafði fundið fyrir votti afkvíða í brjósti án þess að leggja í það nokkra merkingu. Hann hafði komið að húsi mannsins eins og maður sem kemur að húsi kunningja síns síðla kvölds til að eiga við hann stutt spjall undir nóttina. Húseigandinn hafði tekið honum opnum örmum og boðið til stofu. En það var fjarri því að hann settist að einhverju þægilegu kvöldrabbi. Hann gerðist óðamála og ör,talaði þvert á alla skynsemi að hætti hins geðbilaða. Og eitt leiddi af öðru. Rétt undir nónbil stóð hann upp og gekk að skáp sem geymdi hljómplötur. Þar fann hann ákveðna plötu sem hann vildi svo gjarnan hlusta á: What a WonderfulWorld með Louis Armstrong ...

*

Frá fjölritunarvélinni í Letri streymdi ofgnótt ljóðabóka, bækur sem síðan voru annaðhvort fræstar eða heftar í kjölinn – bækur sem áttu erindi til fólksins í bænum. Skáldin mættu í Letur með adrenalínflæðið í líkamanum og glampa í augum. Og með góðan slatta af ljóðakverum í hvítum plastpoka var stikað um götur bæjarins í söluherferð. Það var kássast upp á hvern þann sem á vegi varð og þótti líklegur kaupandi.

Hann, eins og svo margur ungur maðurinn, heillaðist af sjarma prentsvertunnar og hóf að berjasaman ljóðbók í því skyni renna henni í gegnum fjölritunarvélina í Letri.

Ég hafði nokkuð kynnt mér skáldskap, bæði ljóð og laustmál. Módernismi í kveðskap höfðaði sterkt til mín, en hið rímaða form var mér ekki að skapi – og er svo enn í dag. Sakir menntunarskorts stóð ég illa að vígi hvarð varðaði erlend tungumál. En nóg var til af ágætum skáldskap í íslenskri þýðingu og þegar fjárhagurinn leyfði voru fornbóksölur bæjarins þræddar og keyptar bækur sem ég vissi að voru vandaðar og góðar bókmenntir.

Tilraunir mínar við ljóðið voru vissulega fálm í myrkri. Á árunum 1975 til 1986 gaf ég út sjö ljóðabækur sem voru hreint stílbrot í bókmenntum. Bækurnar voru allar brennimerktar geðsýkinni. Égupplifði brennandi þörf fyrir að forma hugsanir mínar í skáldskap en brot varí sálinni sem hamlaði því að draumurinn yrði að veruleika. Þannig gekk það til,ár eftir ár. Hver bókin af annarri leit dagsins ljós, bækur sem voru andvana fæddar að forminu til. Án vafa hafa verið uppi raddir um orsök þessara geðtrufluðu ljóðabóka minna, eins og til dæmis ofneysla á sýru. En þrátt fyrir ruglið, þrátt fyrir hinar geðstola ljóðabækur var ég alltaf þess fullviss að rétt miðaði, að sá dagur kæmi að skáldskapur minn næði styrk og þroska – myndi hreinsa sig.

*

Það fór ekki hjá því að manndrápið í sinni hrikalegu mynd hafði vakið óskipta athygli fjölmiðla. Meðan ég var á Sogni gerði RÚV þátt um deildina. Í þeim þætti birtist viðtal við mig sem olli einhverju uppnámi í fjölskyldu minni. Þegar ég losnaði var haft samband við mig vegna þáttarins „Sönn íslensk sakamál“. Eftir nokkra umhugsun féllst ég á að veita viðtal. Viðtalið fór fram á heimili mínu og eftir á að hyggja slapp ég nokkuð vel frá því. Mér var boðið að andlitið yrði blörrað og nafninu breytt. Ég hafnaði því,kvaðst ekki hafa neitt að fela. Þessi afstaða mín þótti nokkuð áræðin því vanalega hafði viðgengist í þessum þáttum að breyta nafni og blörra andlit. Þann tíma sem ég var innilokaður var mér alltaf ljóst að fjölmiðlar kynnu að hafa áhuga á máli mínu þegar ég slyppi út. Ég sá í hendi mér að framtíð mín sem listamaður fælist í því hvernig ég kynnti sjálfan mig á opinberum vettvangi. Hafði ég áform um að endurreisa listamannaferilinn á þann hátt að eftir yrði tekið. Það var allt samhangandi, hvernig ég kæmi fyrir í kastljósi fjölmiðla, hvernig mér yrði tekið af samborgurum mínum, hvernig ég myndi spila úr fortíð minni og hvernig mér tækist að fóta mig á listabrautinni. Það eitt var ljóst, að ekki kom til greina að fara með veggjum fullur af sektarkennd og skömm. Ef ég ætlaði að vinna mér stöðu sem listamaður yrði ég að hafa kjark til að horfast í augu við hvunndagsborgarann, yrði að standa með sjálfum mér og láta ekki neikvæðni fólks og fordóma hamla för ....

*

Þroskaferill minn sem listamaður fór ekki varhluta af geðklofanum. Það má með sanni segja aðgeðklofinn hafi fætt af sér listamanninn því eftir hvert kast var ég hæfari í listsköpun minni. Að uppfylla drauminn fylgdi sú kvöð að bera hinn þunga krossgeðklofans. Á tímabilinu frá 1974 til 2007 tók ég á mig níu geðklofaköst. Fólk sem hefur viljað hafa skoðun á hinu róstursama lífi mínu hefur sagt sagt að ég sé gangandi kraftaverk og að það hljóti að vera fyrir tilverknað almættisins að ég sé enn í tölu lifenda. Um það skal ekki deilt og vissulega er ég fullur auðmýktar fyrir þeim náðarkröftum sem hrifu mig úr brimöldunni og skiluðu mérupp á strönd lífsins.

Hann barðist viðtómleikann í lífi sínu. Spaðar tómleikans snerust fyrir vindi laskaðra tilfinninga. Líkt og um fáránleik farandriddarans sögufræga sem barðist við vindmyllu, virtist barátta hans harla tilgangslaus. Þegar hann geystist fram með lensu hugaróranna að vopni, eins og sannur farandriddari á hásléttu hinna deyjandi augnablika, eins og sá sem finnur sig knúinn áfram af sannleikanum, sannleika sem ætíð var nálægur en þó alltaf víðs fjarri, var líkast því sem skuggamynd tómleikans væri sífellt að toga hann inn í algleymi, algleymi sársauka og þjáningar.

*

Þegar ég horfi í spegil fortíðar, allt til bernsku minnar og sé systkini mín og foreldra verður mér hugsað til þess að þau eru líka hluti af lífi mínu, rétt eins og allt hitt. Þrátt fyrir sama og engin samskipti við systkini mín í hartnær fimmtíu ár eru þau samgróin mér á beinunum. Það gera blóðtengslin.

En það er önnur hlið á því máli. Það eru minningar geðklofans:

Að faðir hans hafi ekki getið hann og því síður að móðir hans hafi fætt hann. Hann leitaði skýringa á tilurð sinni og kafaði niður í myndheim minninganna. Þar sá hann geimskip sem kom til þorpsins, um miðja tuttugustu öldina og lét hann falla niður um lúgu og niður í sandkassa.

Hann sat flötum beinum í sandkassanum og yfir honum lónaði geimskipið. Loftið var mettað blámóðu og vindstrengur stóð frá geimskipinu. Þá var allt í einu einhverju kastað niður til hans. Það var leikfang, bíll.

Skrýtið, hvað hafði svo orðið um bílinn?

Síðan hafi karl faðir hans fundið hann í sandkassanum og farið með hann heim og sýnt kerlingu viðundrið. Þau hafi svo ákveðið að fela hann um hríð í kjallarakompu vegna þess að nágrannarnir máttu ekki komast að leyndarmálinu. Þetta fannst honum afar trúverðugt minningarbrot og þótt hann myndi ekki eftir sjálfu fallinu niður um lúgu geimskipsins var hann viss um að þannig hafi það gerst.

Svo var önnur minning frá síðari heimsstyrjöld: Hann var á Íslandi þegar stríðið braust út.Bandarískur herskipafloti var á ytri höfninni. Yfirmaður flotans hafði gefið þá skipun að herskipum yrði stefnt til Íslands, þar sem Satúrnusarbarnið skyldi handsamað og flutt vestur um haf. Þar með með hófst hildarleikur sem stóð allt til stríðsloka. Hann komst um borð í geimskipið áður en hervaldið kom á hann höndum og sagði síðan stórveldunum stríð á hendur. Á meðan hann barðist gegn herafla þjóðanna grúfði rautt myrkur yfir jörðinni. Svo fór þó að hann varð að láta undan síga og gefa sig hervaldinu á vald. Var hann þá settur upp í flugvél og látinn henda kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki. Að því loknu fékk hann að fara frjáls ferða sinn og fór þá aftur til Íslands. Þegar þangað kom upplifði hann nöturlegan atburð. Það var víddarinnrásin þegar ríkisstjórnin fundaði eitt sinn á Hótel Borg. Honum hafði verið boðið til fundarins sem áheyrnarfulltrúi Satúrnusar. Svo háttaði til að stórir speglar þöktu stóran hluta suðurhliðar veitingasalarins. Það var í miðjum klíðum fundarins og forsætisráðherrann var að flytja mál sitt að speglarnir tóku allt í einu að titra. Hann sá strax hvað verða vildi og spratt upp úr stólnum í ofboði og hrópaði: „Víddarinnrás! Víddarinnrás!“ En það var um seinan; verurnar úr hinni framandi vídd höfðu náð að holdgast í ríkisstjórninni.

*

Á fyrra þroskaskeiði mínu fóru að koma fram alvarlegar brotalamir í persónu minni. Lengi vel var líf mitt á hverfandi hveli og mátti ekki á milli sjá hvert stefndi – hallaði þó heldur á ógæfubrautina. Fyrsta ástin í lífi mínu var ljós í myrkrinu. Tilveran, sem áður hafði verið mér mótdræg, varð skyndilega að samhljómi fegurðar og léttleika.

Það hafði komið stúlka inn í líf hans, stúlka sem sá það sem aðrir sáu ekki, sá ljósið sem lýsti innra með honum. Og hann opnaði sig fyrir þessari stúlku, opnaði allar gáttir sálarinnar og leyfði henni að baða sig í ljósinu. Hún skeytti ekki um þótt ytra byrði hans væri myrkt og þögult, heldur gekk hiklaust inn í hulduklettinn og umvafði hann ást og kærleika. Það hreif hann smám saman úr ölduhafi svartnættis og bar hann upp að strönd lífsins. Það voru fyrstu merkinum að með honum leyndist enn þá lífsmark, að hann hafði ekki með öllu glataðlífi sínu í hendur fásinnis og flærðar.

Dag einn var hann gerður burtrækur úr Paradísargarðinum og við tók hrjósturlendi mannheimsins. Hann skolaðist lengi vel um í ölduróti geðsveiflunnar. Af veikum mætti reyndi hann að vera listagyðjunni handgenginn, reyndi að blása í hinar kulnandi glóðir og reyndi að finna listinni farveg. Sköpunarþörfin ólgaði innrameð honum og handan við múrvegg tímans hljómaði rödd bernskunnar í ákalli um að gefast ekki upp. Það hrikti í öllum stoðum tilverunnar. Hinir sterku þræðir persónuleika hans voru við það að slitna. Hver dagur var hans síðasti.

Svo kom höggið, hið ófyrirsjáanlega högg, hið þunga högg sem í einni svipan svipti hann vegabréfinu að borgaralegri tilveru, högg sem feykti upp öllum hurðum veruleikans svo nístingskaldir vindar næddu um sálarheiminn. Hann hafði þrætt einstigi myrkursins inn að fordyri vítis í leitinni að eigin lífi, lífi sem hann hafði misst sjónar á í skarkala tilverunnar. Enginn jarðneskur kraftur gat stöðvað hann í leitinni að uppsprettunni, í leitinni að hinni einu réttu leið út úr völundarhúsi tómleika og tryllings. Á sama augnabliki gerðist það; að skuggamættið frelsaði hann og tími hans var útrunninn. Lausnin sem lá á borði veruleikansvar blátt áfram hrollköld og djöfulleg: óskapnaður sem glotti sínum dýrskjafti– hann sjálfur! Leitin hafði borið hann að innstu rökum, að vængjahurð tveggja tíma þar sem hann hitti fyrir sjálfan sig í dýrslíki? Og hið blikandi hnífsblað myrkursins, hnífsblað sem í einni svipan hjó í sundur þræði tímans …

PLAKAT

Stærð: 50 X 70 Cm.

MÁLVERK

Nr.1. Stærð: 35 X 45 cm - Olía á striga

Nr.2. Stærð: 35 X 45 Cm – Olía á striga

Nr. 3. Stærð: 61 X 45 Cm – Akryl á striga

{{ userName(backer) }}

{{ backer.short_description }}

NOT FUNDED

This project was not funded or cancelled.

€341

raised of €2,200 goal.

0

days to go.

16% FUNDED
No rewards exist or campaign is not public. Log in to add or edit rewards.
Get this! All gone!

Pledge € {{ reward.amount }} {{ reward.amount * 150 }} ISK


{{ reward.title }}

{{ reward.description }}

Limited ({{ stockLeft }} left of {{ reward.stock }} ) Gone (0 left of {{ reward.stock }} )
{{ reward.stock_reserved }} backer {{ reward.stock_reserved }} backers
Get this!

Pledge without a reward

Karolina Fund ehf © 2022 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464